150. löggjafarþing — 36. fundur,  27. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:46]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að tala um eldri borgara þessa lands, fólkið sem byggði upp landið. Við erum að tala um fólk sem er í stórum hópi eldri borgara sem ná ekki lágmarkslaunum í landinu. Stór hópur hefur yfir þeim launum en stór hópur hefur það ekki. Það er ömurlegt til þess að vita að þurfa að hitta þetta fólk. Það kemur til manns og segir: Heyrðu, ég hef ekki efni á að fara til læknis. Ég hef ekki efni á að fara í rannsóknir. Og það er enn ömurlega þegar hjón koma og segja: Við höfum ekki efni á að leysa út lyfin okkar. Út af hverju? Vegna þess að gjaldtímabil lyfja lendir á sama tíma hjá þeim báðum, upphaf nýs gjaldtímabils. Það er ömurlegt að við skulum ekki geta lagfært það. Við erum með stóran hóp eldri borgara sem hefur ekki efni á læknishjálp eða lyfjum og að sá hópur sé einnig undir lágmarkslaunum.