150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

staða fátækra.

[10:41]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Eiginlega er spurt um þrjá þætti. Í fyrsta lagi: Hvað er ríkisstjórnin að gera fyrir þá einstaklinga og þau heimili sem búa við bágust kjörin? Margar af þeim aðgerðum sem eru hluti af lífskjarasamningunum svokallaða sneru m.a. gagnvart þessum hópi vegna þess að þetta eru ekki allt saman örorkulífeyrisþegar. Þetta er líka fólk með lágar tekjur, atvinnulausir og fleiri. Aðgerðirnar í húsnæðismálum lúta sérstaklega að þessum hópi; aðgerðir sem m.a. var verið að kynna á húsnæðisþingi í gær og lúta að sérstökum hlutdeildarlánum eru sérstaklega gagnvart þessum hópi. Aðgerðir í skattamálum voru sérstaklega gagnvart þessum hópi. Allar aðgerðirnar í húsnæðismálunum almennt eru með megináherslu á þennan hóp. Ríkisstjórnin er að setja milli 3 og 4 milljarða á næstu árum í almennar íbúðir þar sem á að byggja nýjar leiguíbúðir sérstaklega fyrir þennan hóp, í almenna íbúðakerfinu, þannig að það er fjölmargt sem verið er að gera. En ég tek undir með hv. þingmanni að við þurfum að gera meira og við þurfum alltaf að huga að því hvernig við getum gert meira fyrir þennan hóp. Því verkefni er aldrei lokið.

Varðandi búsetuskerðingar, sem líka var spurt um, hvort ætti ekki að leiðrétta þær fyrr en eftir tvö ár, þá veit ég ekki annað en að þar sé í gangi sú áætlun sem kynnt var á sínum tíma varðandi leiðréttinguna í kringum búsetuskerðingar, að eitthvað af því yrði leiðrétt strax en annað kæmi síðar vegna þess að það þyrfti að kalla eftir gögnum og kalla eftir upplýsingum. Ég veit ekki annað en að það sé bara í góðum farvegi.

Síðan varðandi seinustu spurninguna um jóla- og orlofsbónusinn, þá veit ég ekki annað en að það lúti bara þeim (Forseti hringir.) almennu reglum sem gilt hafa um desemberuppbót eða orlof, bæði gagnvart örorkulífeyrisþegum, (Forseti hringir.) atvinnulausum, foreldrum langveikra barna og öðrum. Það er ekki verið að gera neinar breytingar á því núna á milli ára.