150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

staða fátækra.

[10:45]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég segja að mér fannst þingmaðurinn gera lítið úr mikilvægi þess að hafa húsnæði og þak yfir höfuðið vegna þess að það er eitt af því mikilvægasta sem hefur verið lagt upp með. Í upphafi þessa kjörtímabils var talað um að allt of hátt hlutfall af tekjum fólks og sérstaklega tekjulægstu hópanna færi í húsnæðiskostnað og þess vegna hefur ríkisstjórnin lagt megináherslu á húsnæðismálin í allri sinni vinnu með það að markmiði að horfa sérstaklega á þann hóp sem lægstar hefur tekjurnar og bágust kjörin í þessu samfélagi. Þar erum við komin með fjölmargar aðgerðir einmitt til þess að ná utan um það. Því lægra hlutfall sem fer í húsnæðiskostnað, þeim mun meira er til ráðstöfunar.

Varðandi síðan orlofsuppbót, desemberuppbætur og annað þá segi ég bara það sem ég sagði áðan: Við erum að vinna eftir sama kerfi og verið hefur hvað það snertir. En það er hins vegar svo að ég hef kallað eftir því að fá fram aukna pólitíska samstöðu um að gera breytingar á bótakerfinu, (Forseti hringir.) einfalda það, fækka bótaflokkum og fleira vegna þess að þetta kerfi er mjög mikil flækja og sérstaklega gagnvart innbyrðisskerðingum o.fl. (Forseti hringir.) Ég kalla eftir því að hv. þingmaður og aðrir komi með okkur í þá vegferð sem boðuð er á nýju ári.

(Forseti (GBr): Forseti óskar eftir því að hljóð sé í hliðarsölum þingsins.)