150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

aðgengi að RÚV í útlöndum.

[10:46]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Þann 19. júní sl. samþykktum við á Alþingi reglugerð ESB sem miðar að svokallaðri frjálsri för fyrir þjónustu efnisveitna og myndmiðlaþjónustu á innri markaði EES. Í reglugerðinni var mælt fyrir um skyldu þjónustuveitenda hljóð- og myndmiðlaþjónustu til að hafa þjónustuna aðgengilega utan heimalands áskrifenda þegar þeir eru staðsettir tímabundið í öðru aðildarríki, eins og það er orðað. Þjónusta RÚV fellur ekki undir þessa reglugerð þar sem ekki er um að ræða áskriftarþjónustu þannig að þeir Íslendingar sem eru staddir utan Íslands geta ekki nálgast allar útsendingar RÚV. Ástæða þess er að sumir dagskrárliðir eru af ýmsum orsökum gerðir óaðgengilegir þeim sem hafa erlendar IP-tölur. Samt sem áður greiða þeir aðilar skatta og skyldur á Íslandi og þar með talið útvarpsgjald RÚV. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvernig staðan er í því mikilvæga máli sem snertir íslenska skattgreiðendur sem búsettir eru utan landsteinanna.