150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

auðlindastefna.

[10:53]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina um mál sem hefur verið, eins og hv. þingmaður benti réttilega á, umdeilt í samfélaginu í mörg ár. Nægir að rifja upp kjörtímabilið 2009–2013 þegar flokkur hv. þingmanns og minn flokkur vorum saman í ríkisstjórn og lagt var fram frumvarp um að breyta kerfinu þannig að gefin yrðu út tímabundin nýtingarleyfi þar sem áréttað væri að um tímabundnar heimildir væri að ræða og byggt yrði vissulega á reynslunni og því sem gott hefur fylgt aflahlutdeildarkerfinu, t.d. hvað varðar sjálfbæra nýtingu, en málum yrði breytt og þannig áréttað að þjóðin færi með yfirráð auðlindarinnar með því að hugsunin væri sú að þetta væri gefið út með leyfum af hálfu ríkisins fyrir hönd þjóðarinnar. En ekki náðist að klára það mál hér í þingsal sem var mjög umdeilt, að sjálfsögðu, og mætti mikilli andstöðu þá.

Það sem breyttist þó var álagning hins sérstaka veiðigjalds. Ég tel raunar að sú breyting sem gerð var núna á því gjaldi sé til bóta þar sem verið er að afkomutengja gjaldið. Lagt er til 33% gjaldhlutfall af stofninum sem skilar okkur til að mynda töluvert hærra gjaldi á komandi ári en gamla fyrirkomulagið hefði gert og byggir að mörgu leyti á sömu hugmyndafræði og lögð var til árið 2012 þegar sérstaka veiðigjaldið var lagt á, þar sem til að mynda fjárfestingar voru frádráttarbærar.

Hv. þingmaður spyr: Er að skapast samstaða um leiðir? Ja, við höfum að sjálfsögðu gagnrýnt útboðsleiðina sem hv. þingmaður vísar í. (Forseti hringir.) Við höfum einmitt áhyggjur af samþjöppuninni sem fylgt hefur aflahlutdeildarkerfinu og myndi fylgja slíku (Forseti hringir.) kerfi nema sett væru mjög mikil þök inn í útboðskerfið, (Forseti hringir.) þannig að það yrði auðvitað löng og mikil umræða sem þyrfti að taka.