150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

auðlindastefna.

[10:57]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ef við segjum sögu veiðigjaldsins alla eins og hún er er það svo að ef óbreytt kerfi hefði haldist hefði það skilað u.þ.b. 2 milljörðum en sú breyting sem við gerðum á kerfinu skilar talsvert hærri fjárhæð. Hv. þingmaður þarf að segja alla söguna þegar hann talar um breytingar á veiðigjöldum. Óbreytt kerfi hefði skilað mun lægri fjárhæð en skilað er með þeirri breytingu sem núverandi ríkisstjórn gerði.

Hv. þingmaður nefndi auðlindaákvæðið í fyrirspurn sinni. Ég vil bara ítreka það sem ég sagði í svari mínu við hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur áðan, það er mjög mikilvægt að hér skapist sem breiðust samstaða um að árétta það að auðlindirnar eru eign þjóðarinnar og verða engum afhentar varanlega. Þá væri hugsanlega hægt að grafa þá þrætu varanlega í íslenskri pólitík ef Alþingi gæti komið sér saman um að samþykkja slíkt ákvæði sem ég tel skipta mestu máli þannig að löggjafinn (Forseti hringir.) geti gert þær breytingar á auðlindanýtingu sem hann kýs að gera.

Svo vil ég segja að það voru góðir tímar þegar okkar flokkar voru saman í ríkisstjórn en samt fór það svo að Vinstrihreyfingin – grænt framboð missti sex þingmenn úr liðinu þá. Ætli við verðum ekki að gera þetta allt upp í lok hvers kjörtímabils.