150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

lyfjalög.

390. mál
[11:26]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst til að fylgja því eftir sem hv. þingmaður spurði um áðan, um fyrirkomulagið og hið miðlæga hlutverk Landspítala, er þetta fyrirkomulag sem á sér fyrirmynd í Noregi og Danmörku, svo að því sé haldið til haga hér úr ræðustól.

Hv. þingmaður spyr um þá tillögu sem kemur fram í frumvarpinu að lyfjagreiðslunefnd verði felld niður. Hún er í raun og veru viðbragð við þeirri staðreynd að stjórnsýsla í lyfjamálum hefur ítrekað verið gagnrýnd og þar með talið af Ríkisendurskoðun. Það hafa margir bent á mikilvægi þess að opinber umsýsla um lyfjamál verði einfölduð og verði sameinuð. Eitt skref í átt að slíkri einföldun er m.a. að leggja lyfjagreiðslunefndina niður og færa verkefnið til Lyfjastofnunar. Aftur á móti er stjórnsýsla lyfjamála í eðli sínu flókið fyrirbæri og oft þarf fleiri en eitt stjórnvald til að koma að ákvarðanatöku, t.d. ákvörðun sem varðar greiðsluþátttöku. Það kerfi sem lagt er til í frumvarpinu er talið einfalda þessa stjórnsýslu og gera hana skilvirkari.

Þá þarf að halda því til haga að stjórnsýslunefndir eru bundnar af þeim reglum að vera bara ályktunarhæfar á löglega boðuðum fundum og ef hefðbundið stjórnvald fær sömu verkefni má gera ráð fyrir því, þó að stjórnvöldin þurfi að leita samráðs, að ákvarðanatakan verði skilvirkari og einfaldari. Þá er spurt: Af hverju er ekki haldið í lyfjagreiðslunefnd og hún gerð í raun og veru að kærunefnd? Það er eitt af umræðuefnunum sem hefur verið uppi á borði. Því er til að svara að það væri í sjálfu sér ekki til einföldunar á opinberri umsýslu lyfjamála. Því er hér lagt til að ákvarðanir Lyfjastofnunar verði ekki kæranlegar fremur en ákvarðanir lyfjagreiðslunefndar eru núna.