150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

lyfjalög.

390. mál
[11:33]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil bara þakka ráðherra kærlega fyrir þessi svör. Ég styð hana heils hugar í þessari baráttu. Svo langar mig að spyrja hana líka um óhefðbundin lyf eins og t.d. hampolíu sem margir eru farnir að nota núna og mér skilst að sé mjög kostnaðarlítil framkvæmd og virðist virka fyrir marga. Er ekki kominn tími til að hafa í lyfjalögunum eitthvað óhefðbundið þannig að fólki sé ekki alltaf vísað á einhver tæknilyf sem að mörgu leyti skaða? Ég veit af eigin reynslu að þegar maður er kominn í 16, 17, 18 töflur á dag og síðan töflur við aukaverkunum af töflum, þá er eitthvað að kerfinu sem hagar sér svoleiðis. Ég vil líka að vita hvort það sé eitthvert skráningarferli til að fylgjast með því að fólk fái ekki svo mikið af lyfjum að það valdi því skaða. Við þurfum líka að átta okkur á því að fólk verður gamalt og getur orðið gleymið og síðan var mér bent á það af einstaklingi sem var að taka til í lyfjaskáp eftir foreldra sína að hann fann þar lyf sem hlupu á milljónum. Þessu varð að henda. Þarna virðist hafa safnast upp ótrúlegur stafli af lyfjum sem kostuðu mikið, þetta voru rándýr lyf. Það virðist vera eins og það sé allt eftirlitslaust í því samhengi. Ef við viljum virkilega draga úr lyfjanotkun og draga úr kostnaði hljótum við að þurfa að finna leið til þess að fylgjast með því.