150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

lyfjalög.

390. mál
[11:43]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir framsögu hennar í þessu máli og fyrir að leggja fram þetta mál. Eins og hæstv. ráðherra kom inn á í ræðu sinni er liðinn langur tími síðan unnið var að heildarendurskoðun á lyfjalögum. Hagsmunirnir sem eru undir eru gríðarlegir og viðfangið skiptir okkur öll mjög miklu máli. Það eru ekki bara hagsmunir okkar sem samfélags heldur líka hagsmunir þeirra einstaklinga sem undir eiga, fyrirtækja, framleiðenda o.s.frv. Mér sýnist augljóst af því að fara yfir frumvarpið og skoða þá vinnu sem liggur að baki að hér hafi verið vandað til verka og rétt er að hrósa ráðuneyti hæstv. ráðherra fyrir þá vinnu. Þarna er greinilega á ferðinni mjög umfangsmikið verk.

Það eru nokkur atriði, eðli málsins samkvæmt, sem þarf væntanlega aðeins að velta fyrir sér að skoða betur í vinnu nefndarinnar. Ég mun fara yfir þau helstu sem ég hef rekist á við yfirferð mína. Það er rétt að taka fram að þau atriði sem ég nefni eru í öllum meginatriðum tilfærslur, snurfus, vangaveltur, því að heildarbragurinn á þessu frumvarpi er a.m.k. mér mjög að skapi. Ég mun reyna að fara yfir þetta nokkurn veginn í greinaröð þannig að menn eigi auðvelt með að fylgjast með, hafi þeir áhuga á því.

Í 32. gr. er talað um lyfjablandað fóður. Það kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að það hafi ekki verið farið í að breyta mikið þeim ákvæðum sem þarna eru, þ.e. um lyfjablöndun í fóður. Ég velti aðeins fyrir mér hvort ekki væri í anda þeirrar umræðu sem hefur farið fram, ekki aðeins á Íslandi heldur víða um heim, um notkun lyfja við dýrahald — og þá er ég ekki að meina notkun lyfja við dýrahald sem meðferð við sjúkdómum heldur sem fyrirbyggjandi aðgerð við sjúkdómum eða einhvers konar íblöndun í fóður — hvort það þurfi kannski ekki að vera skýrari umbúnaður um það en þarna kemur fram. Það er reglugerðarheimild þarna inni en ég velti fyrir mér hvort a.m.k. einhver hluti af þeim ákvæðum sem nú eiga heima í reglugerð væru ekki betur komin hreinlega í lyfjatextanum.

Í 34. gr. er talað um lyfsöluleyfi og IX. kaflinn fjallar um lyfsölu og lyfjabúðir. Þar er m.a. talað um þau skilyrði sem þurfa að vera til að lyfjafræðingar geti fengið starfsleyfi sem lyfsali. Segja má að aðeins séu rýmkuð skilyrði frá núgildandi lögum. Í núgildandi lögum þarf þriggja ára starfsreynslu, ef ég man rétt, en þarna er í raun gert ráð fyrir tveggja ára starfsreynslu. Þar á er breyting. Hún kann að vera algerlega ásættanleg en þetta eru störf og rekstur sem krefjast mikillar sérþekkingar og reynslu og sá sem á að bera ábyrgð á afgreiðslu lyfja út úr lyfsölu þarf kannski að sæta strangari skilyrðum og strangari reglum en þarna kemur fram. Nú þekki ég það ekki nægilega vel, herra forseti, hvort þarna eru undir einhvers konar samræmdar evrópskar reglur en nefndin mun vafalítið fara yfir það.

Í 43. gr. er talað um rekstur lyfjabúðar í heilbrigðisstofnun. Það er aðeins komið inn á það vandamál sem er víða á Íslandi, þ.e. að er samfélög eru það lítil að það eru jafnvel ekki forsendur til að reka lyfjaverslun. Samfélagið er lítið og m.a. sjónarmið um arðsemi gera að verkum að menn treysta sér ekki til að reka lítið lyfjaútibú, jafnvel þó að þeir séu með lyfsölu í öðru stærra nágrannasveitarfélagi eða samfélagi. Þetta er að mínu viti afar mikilvægt og kemur í rauninni inn á þær vangaveltur sem hv. þingmenn kannast við frá því nýlega héðan úr þingsal þar sem menn voru að velta fyrir sér hvort það ætti í auknum mæli að leyfa smásölu lyfja í almennum verslunum. Þarna gæti einmitt komið til einhvers konar útgáfa af því sem að mínu viti væri a.m.k. skynsamlegri lausn en sú sem ég nefndi áðan.

Í 52. gr. er talað um það sem kallað er útskiptanleiki lyfja. Þar er átt við heimildir sem raunar eru þegar til staðar til að ávísa samheitalyfjum jafnvel þó að það standi annað sérlyfjaheiti á lyfjaávísun. Ég velti því fyrir mér hvort það hefði verið ástæða til að hafa einhvers konar áskilnað um endurgjöf til þess sem skrifar út eða ávísar lyfinu. Auðvitað er það ákvæði sem hefði svo sem alveg mátt vera í fyrri lyfjalögum en núna erum við að fara í heildarendurskoðun. Þá velti ég fyrir mér hvort það væri kannski ekki bara flötur á því að setja inn einhvers konar ákvæði um endurgjöf til þess sem ávísar þegar viðkomandi sjúklingur fær annað lyf afhent. Þarna tala ég af nokkurri reynslu eftir að hafa í gegnum tíðina fengið afar mörg símtöl frá sjúklingum með spurningar um lyf sem þeir hafa fengið afhent en hafa ekki verið þau lyf sem var talað um í viðtali við viðkomandi. Það getur verið mikilvægt að vita um þessar breytingar.

XIII. kaflinn er kannski stærsta breytingin frá núgildandi ákvæðum, kaflinn um auglýsingar þar sem er horfið frá þeirri meginreglu sem hefur verið á Íslandi að lyfjaauglýsingar séu ekki heimilar. Nú er sem sagt verið að horfa til þess að grundvallarreglan sé að lyfjaauglýsingar séu heimilar og að það séu þá í rauninni frekar takmarkanir á heimildinni en undanþágur frá takmörkuninni, undanþágur frá banninu. Ég ætla í sjálfu sér ekkert að dæma um það hvort fyrirkomulagið er betra en mér finnst a.m.k. þurfa að hugsa það mjög vandlega, og nefndin mun vafalítið gera það, hvort þarna sé kannski verið að opna stærri glugga en við áttum okkur á og hvort við ættum að velta því fyrir okkur að halda þeim glugga ögn þrengri en hann er í dag.

Í XIII. kafla er eftir því sem ég get best séð talað um lyfjaauglýsingar fram og til baka en það er ekki talað um eina tegund lyfjaauglýsinga sem er mjög algeng nema svona meira í, fyrirgefið dönskuslettuna, herra forseti, „forbifarten“, í framhjáhlaupi heitir það víst á íslensku. Það er þegar lyfjakynningar eru í eðli sínu lyfjaauglýsingar, fara fram annaðhvort inni á stofnun eða starfsstöð heilbrigðisstarfsmanna. Auðvitað átta ég mig á því að ákvæði laganna um auglýsingar ná náttúrlega líka yfir það en hins vegar er oft hægt að hægt að leika sér eða vinna svolítið með skilgreiningarnar á því hvað sé auglýsing og hvað ekki og þannig sneiða svolítið fram hjá ákvæðum laganna. Ég velti fyrir mér hvort það væri ástæða til að taka betur á því.

Í 63. gr. er talað um aukaverkanir og í 1. málsgreininni er talað um skyldu til að tilkynna aukaverkanir. Ég er algerlega sammála því að þetta sé mikilvægt og við eigum að taka þetta upp. Á hinn bóginn þarf að gera ráð fyrir því að í því muni á endanum felast nokkur kostnaður fyrir heilbrigðiskerfið og fyrir heilbrigðisstofnanir. Í starfi hvers heilbrigðisstarfsmanns koma kannski fram á hverjum degi margar aukaverkanir. Það er oft túlkunaratriði hvað er alvarleg aukaverkun eða ný, sérstaklega þegar menn eru að fást við sjúklinga sem eru á mörgum lyfjum eða mörgum tegundum lyfja eða mörgum lyfjaflokkum, þá verður þetta enn þá algengara. Það er augljóslega mikilvægt að tilkynningarskyldan sé til staðar en það kann að þýða að það verði aðeins umhendis. Auðvitað er hægt að gera margt af þessu rafrænt í dag en jafnvel þau rafrænu skjöl sem eru til staðar núna hjá Lyfjastofnun eru, leyfi ég mér segja, ekki sérlega hentug eða auðveld í notkun. Það tekur tíma að fylla þau út. Það er bara þannig.

Í XV. kafla er talað um lyfjaverð. Ég velti fyrir mér hvort þar hefði átt að vera einhvers konar áskilnaður um hver álagning á lyfjum megi vera, ekki bara hver verðlagning megi vera. En að öðru leyti líst mér á ágætlega á þennan kafla. Í 79. gr. er síðan fjallað um lyfjagagnagrunninn og aðkomu heilbrigðisstarfsmanna að honum og ég fagna því mjög að það sé opnað á að aðrir heilbrigðisstarfsmenn en læknar geti skoðað grunninn. Ég velti því hins vegar fyrir mér hvort menn ættu að þurfa að sækja um það á einhverjum tilteknum fresti að hafa aðgang að grunninum. Það þurfa til að mynda ekkert endilega allir heilbrigðisstarfsmennirnir sem þarna eru undir eða allir aðilarnir í þessum stéttum á öllum tímum að hafa aðgang að grunninum og ég velti því fyrir mér hvort það ætti að vera einhvers konar pósitíf umsókn um aðgang.

Síðan er það hitt sem þarna er tekið fram, að grunnurinn eigi að vera fimm ár aftur í tímann. Oft er það alls ekki nóg. Stundum þarf maður að hafa upplýsingar miklu lengra aftur í tímann og það er ekkert flókið að hafa einhvers konar hliðargátt. Auðvitað kostar það peninga, umstang og allt þetta en að vera með einhverjar statískar upplýsingar geymdar einhvers staðar og aðgengilegar er ekkert ofboðslega erfitt en getur skipt alveg gríðarlega miklu máli. Þess vegna velti ég fyrir mér hvort við ættum jafnvel að hafa þetta ákvæði aðeins víðara.

Ég fagna ákvæðinu í 44. gr. og 45. gr. um lyfjanefndirnar. Ég velti því hins vegar fyrir mér hvort það hafi verið skoðað í ráðuneytinu að þær eigi að vera hlutlausari en kemur fram í greininni og þá jafnvel þannig að þar væru ekki starfsmenn viðkomandi stofnana. Þeir sem væru þarna undir væru ekkert endilega starfsmenn Landspítalans eða starfsmenn heilsugæslunnar eða neitt þess háttar eða a.m.k. með einhverju móti væri búinn til rammi fyrir þá til að vera sjálfstæðir í störfum sínum frá yfirstjórn viðkomandi stofnana vegna þess að það skiptir neytendur væntanlega mjög miklu máli.