150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

lóðagjöld á bújörðum og skattalegir hvatar til að halda jörðum í ábúð.

[14:07]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það sem mér finnst sitja eftir á þessum tímapunkti í umræðunni er hvernig það virðist vera misbrestur í upplýsingum. Ég hygg, alveg óháð því hvort fólk vilji fara að breyta skattkerfinu einhvern veginn, breyta þessu fyrirkomulagi eða fara í einhvers konar heildarendurskoðun, eins og hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir fór yfir hérna áðan, að upplýsingarnar þurfi að vera í lagi. Þær þurfa að vera réttar. Það er ekki endilega bara til að geta hannað skattkerfið heldur vegna þess að þegar upplýsingar eru rangar og það er vitað til þess að þær séu ónákvæmar eru alls konar önnur vandamál sem geta komið upp sem enginn veit af. Ógegnsæi er í eðli sínu skaðlegt og það er ekki bara skaðlegt fyrir skattheimtu, það er líka skaðlegt fyrir umræðu, t.d. um eignarhald á landi eða þegar kemur að því að uppræta eða koma í veg fyrir alls konar svindl og spillingu sem getur grasserað í miklu ógegnsæi. Að því leyti velti ég fyrir mér, með fyrirvara um vanþekkingu mína á efninu, hvort hugmyndirnar séu komnar fram aðeins of snemma, þ.e. miðað við það hvort hægt sé að ræða þær út frá þeim forsendum sem liggja fyrir. Ef þær liggja ekki fyrir er svolítið erfitt að ætla að fara að móta sér einhverja rökrétta skoðun á því hvernig eigi að breyta kerfinu, þ.e. ef það er vitað fyrir fram að gögnin séu óáreiðanleg.

Ég ætla að láta þetta duga í bili, virðulegi forseti. Ég held áfram að hlusta og mynda mér endanlega skoðun á þessu seinna, en ég verð að segja að viðvörunarorð hæstv. ráðherra, a.m.k. í fljótu bragði, gera það að verkum að ég er ekki æstur í að fara í þessar breytingar og hef reyndar ekki heyrt enn þá mjög sannfærandi rök fyrir því. Mér finnst sjálfsagt að skoða þetta betur, mér finnst alveg upplagt að fara í að laga upplýsingar, samræma þær og gera þær skýrar og aðgengilegar yfirvöldum og jafnvel fleirum, en að fara í aðgerðir, eins og ég skil umræðuna hingað til, tel ég í það minnsta ekki tímabært.