150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020.

2. mál
[15:40]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Hið huggulega samtal sem hann átti við þingmann Pírata var ósköp notalegt. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort það sé ekki í rauninni alveg sama hvað við köllum svona skatta. Hinn svokallaði umhverfisskattur er ekkert ólíkur hinum svokallaða sykurskatti. Það er verið að reyna að búa til einhvers konar neyslustýringu á heimilin í landinu sem nú þegar borga fyrir sorphirðu. Þau eru þegar að borga urðunarskatt ef það má orða það þannig og því langar mig að spyrja hv. þingmann í fyrstu atrennu hvort hann sjái fyrir sér að við getum lækkað aðra skatta á móti urðunarskattinum og þá hvaða skatta mögulega og einnig hvernig útfærslu hann sjái á þessum nýja skatti sem leggst á heimilin og íbúa þessa lands.