150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020.

2. mál
[15:41]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef ekki tíma til að ræða sykurskattinn og ég bið hv. þingmann að virða mér það til betri vegar. (Gripið fram í.) Ég er til í þá umræðu vegna þess að ég hygg að við séum sammála þar.

Það er verið að leggja á gjald á urðun úrgangs, gjald sem við getum kallað skatt. Fólk, heimili og fyrirtæki geta komist hjá þeirri skattlagningu með því að skila úrganginum til flokkunar og endurvinnslu. Til að það sé hægt þurfa allir innviðir að vera til staðar. Það er sem sagt val. Sá sem flokkar ekki, sá sem skilar ekki úrganginum með þeim hætti sem er eins skaðlítill fyrir umhverfið og hægt er að hugsa sér, þarf að greiða fyrir það. Ef hann flokkar ekki er það annars á kostnað annarra. Mér finnst þetta ágætishugmyndafræði (Forseti hringir.) vegna þess að fyrirtækjum og heimilum er í sjálfsvald sett hvort þau greiði þetta gjald eða ekki.