150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020.

2. mál
[15:43]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir andsvarið. Ég hef ekki skipt um skoðun á þessu, þetta er ekkert annað en einhvers konar neysluskattur sem verið er að leggja á. Ég spurði hvaða útfærslu þingmaðurinn sæi fyrir sér á skattheimtunni og þá líka hvort mögulegt væri að lækka aðra skatta á móti. Þingmaðurinn sagði hins vegar að þetta væri einhvers konar val og að þá yrði fylgst með því með einhverjum hætti hverjir flokkuðu og hverjir ekki. Þetta þykir mér býsna forvitnilegt og velti fyrir mér hvort hugsunin sé þá sú að einhvers konar sorplögga verði á ferðinni sem kíki í tunnurnar hjá fólki og fylgist með hvort menn hafi flokkað eða ekki.

Mig langar að spyrja þingmanninn hreinlega aftur: Hvernig verður útfærslan á þessum sorpskatti eða urðunarskatti? Ég trúi því aldrei að þingmaðurinn sjái fyrir sér að einhverjir gluggi í tunnurnar hjá okkur til að athuga hvort við höfum flokkað eða ekki. Einnig spyr ég hvort ekki sé sanngjarnt að ætlast til þess að einhverjir aðrir skattar lækki á móti. Það er draumsýn ein að halda (Forseti hringir.) að þessi skattur hverfi einhvern tímann verði hann lagður á.