150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020.

2. mál
[16:13]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég veit að hann hefur mjög góða þekkingu á þessum málaflokki og dreg alls ekki úr því að hann hefur lagt þar margt gott til málanna. Hv. þingmaður tilgreindi að til stæði að opna hjúkrunarheimili, fjölga rýmum o.s.frv. sem er að sjálfsögðu ánægjulegt. Hins vegar kom fram á fundi með hagsmunaaðilum í velferðarþjónustu að rekstrarfé skorti. Það er það sem skortir og það skiptir mestu máli að við getum mannað hjúkrunarheimili sem er verið að byggja. Hv. þingmaður nefndi sérstaklega Seltjarnarnes. Það voru vandamál við að opna það glæsilega hjúkrunarheimili vegna þess að mönnunin lá ekki fyrir og það sneri að rekstri. Þetta skiptir verulegu máli og Miðflokkurinn lagði fram breytingartillögu við fjárlögin um 790 millj. kr. framlag til að mæta rekstrarvanda hjúkrunarheimilanna á landsvísu. Þetta var fullfjármögnuð tillaga sem var því miður felld. Það er alveg ljóst að þetta er sá þáttur sem við verðum að finna lausn á, hvernig við mætum þessum rekstrarvanda sem sífellt fer vaxandi. Núna er ekki verið að greiða eins og ætti að gera í samræmi við staðlana, hjúkrunarþyngd eins og það er nefnt, sem hefur með rekstrarvandann að gera. Síðan er mönnunarvandinn, erfitt er að fá fólk til að starfa í þessum geira, (Forseti hringir.) þannig að þarna eru margvísleg vandamál sem þarf að leysa. Það er mikilvægt að heilbrigðisyfirvöld setjist yfir þau og finni lausnir í þeim efnum.