150. löggjafarþing — 38. fundur,  2. des. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[16:31]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég vil fyrst og fremst nota tækifærið og þakka hv. allsherjar- og menntamálanefnd fyrir umfjöllun hennar um málið. Ég tel að nefndarálitið sem meiri hlutinn skrifar undir sýni fram á nauðsyn þessa frumvarps í þingsal og sömuleiðis vonast ég sannarlega til þess, af því að ég ætla ekki að fara í pólitískar umræður um þetta mál, að samþykkt þessa frumvarps geti greitt fyrir því að ljúka þessu máli með einhvers konar sátt eftir því sem unnt er að ná sátt í jafn flóknu máli og hér er undir.

Fyrst og fremst kem ég hingað upp til að þakka hv. allsherjar- og menntamálanefnd fyrir framlag hennar í þessu máli og þá vinnu sem þar hefur verið lögð í þetta flókna og viðkvæma mál.