150. löggjafarþing — 38. fundur,  2. des. 2019.

sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki.

4. mál
[17:17]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er með þessa skattalækkun, raunar eins og tekjuskattslækkunina, að ríkisstjórnin er að ýta þessu meira og minna yfir á árið 2021 þar sem ríkisstjórnin var búin með allan peninginn fyrir árið 2020. Mér finnst þetta mál reyndar dálítið kómískara að því leytinu til að við erum í raun að ræða tekjuforsendur fjárlaga árið 2020 en hér erum við að greiða atkvæði um skattalækkanir sem eiga að hefjast árið 2021 og reyndar langt fram á næsta kjörtímabil. Það er kannski einhvers konar syndaaflausn þessarar ríkisstjórnar fyrir það að hafa ekki komið sér að verki í að lækka skatta með meiri krafti en raun ber vitni. Við í Viðreisn styðjum engu að síður þessi áform, þó að þau komi frekar seint til framkvæmda. Það er alveg ljóst að hár bankaskattur hér á landi veldur hærra vaxtastigi en ella væri, það hefur komið ítrekað fram í fréttum að vaxtalækkanir Seðlabanka skila sér ekki sem skyldi til einstaklinga eða fyrirtækja, m.a. vegna hás bankaskatts, og því er ánægjulegt að sjá að vonandi (Forseti hringir.) hilli einhvern tímann undir lækkun hans þó að seint verði.