150. löggjafarþing — 38. fundur,  2. des. 2019.

sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki.

4. mál
[17:19]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp sem felur í sér lækkun á svokölluðum bankaskatti. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að ætlunin sé að lækka skattinn og að sú lækkun skili sér til neytenda í formi lægri kostnaðar fyrir viðskiptavini fjármálafyrirtækja. Fyrir þessu er engin trygging, herra forseti, og í þessari breytingartillögu er lagt til að aðeins verði stigið fyrsta skrefið í stað þess að gefa þegar vilyrði um árlega lækkun næstu fjögur árin. Næstu skref verði stigin að fenginni reynslu af fyrsta þrepi lækkunarinnar þegar sannreynt hefur verið að viðskiptavinir fjármálafyrirtækja njóti góðs af henni í formi lægri þjónustugjalda og bættra vaxtakjara.

Hér er um neytendavernd að ræða í mikilvægri breytingartillögu og ég segi já.