150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Fyrir rúmum hálftíma hélt hæstv. dómsmálaráðherra blaðamannafund þar sem tilkynnt var um starfslok ríkislögreglustjóra. Við sama tækifæri tilkynnti ráðherrann þá fyrirætlan sína að láta semja frumvarp til þess að auka eftirlit með lögreglu. Þetta eru mjög jákvæðar fréttir. Þá hófst lýsing á álitamálum sem efnislega mætti taka beint upp úr vandaðri þingsályktunartillögu Pírata á þskj. 7, um sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu; álitamál á borð við rannsóknarheimildir sem slík sjálfstæð stofnun þyrfti helst að hafa, hlutverk hennar og hugsanlega tengingu við Alþingi og fleira í þeim dúr.

Þótt kannski hafi þurft fullmikið til þá fagna Píratar því í hvert sinn sem ráðherra tekur upp góðan málstað, enda þótt sumir Píratar verði stundum þreyttir á biðinni en við höfum frá upphafi haft mikla trú á því að hægt sé að koma á breytingum með upplýstri umræðu, jafnvel þótt hún taki tíma. En eins og Sjálfstæðisflokkurinn neyðist reyndar alltaf til að gera þegar kemur að málum sem varða frelsi og borgararéttindi þarf fyrst að skoða eitt og athuga annað og stíga varlega til jarðar. Þótt ráðherrann hafi greinilega byrjað að íhuga hluti sem Píratar skoðuðu og ákváðu fyrir mörgum árum er betra seint en aldrei. Því vil ég óska hæstv. dómsmálaráðherra góðs gengis við það góða verk að auka eftirlit með störfum og starfsháttum lögreglu.

Í ljósi orða hv. þingmanns Sjálfstæðisflokksins hér í gær hins vegar þar sem var hváð yfir því að ekki hefðu allir flokkar lagt fram nefndarálit um tiltekið mál sem þar var til atkvæðagreiðslu má spyrja hvort Sjálfstæðismenn myndu kannski ekki gera sjálfum sér greiða og leggja fram nefndarálit um ýmis mál sem finna má á málalista Pírata á þinginu. Það er ýmislegt að finna sem væri gaman og jafnvel gagnlegt að fá nefndarálit frá Sjálfstæðisflokknum um, að vel athuguðu máli.