150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

tollalög o.fl.

245. mál
[14:27]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég get vonandi dregið aðeins úr áhyggjum hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur. Þetta mál hefur vissulega góðan tilgang eins og honum er lýst en það er hins vegar heilmikið til í því sem fulltrúar stjórnarandstöðunnar hafa sagt hér á undan mér. Það hafa verið gerðar alvarlegar athugasemdir við það hvernig þetta mál var unnið, m.a. samskipti við starfsmenn. Því er eitt og annað ókannað, ekki hvað síst, eins og bent var á, að menn reyni að læra af reynslunni í Danmörku þar sem fór fram sambærileg sameining og gekk ekki alveg sem skyldi. Við hefðum getað lært eitthvað af því. En vegna þess að tilgangur málsins er góður og mikilvægur munum við ekki leggjast gegn því að málið haldi áfram og ég mun styðja það að málið haldi áfram eftir 2. umr. En ég vona að það takist í nefndinni eins og kostur er að leysa úr þeim álitamálum sem hafa komið upp varðandi undirbúninginn og einu þarf að huga sérstaklega að, þar sem hér er verið að búa til gríðarlega valdamikla stofnun, að menn passi á sama tíma upp á rétt borgaranna.