150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

tollalög o.fl.

245. mál
[14:28]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta mál er ekki í minni nefnd og ég hef því ekki fylgst mjög vel með því en ég er búinn að hlusta á menn ræða málið og þar kemur í ljós að það er verið að sameina tvær stofnanir, þar af leiðandi hlýtur yfirmaður annarrar að detta út. Hvor er það? Það er fróðlegt að skoða þetta í ljósi sögunnar, eins og gerðist með Samkeppnisstofnun á sínum tíma: Hún var klippt í sundur, út kom Samkeppniseftirlitið og skipt var um forstjóra; eins og var gert með Þjóðhagsstofnun: Hún var ekki nógu þæg, felld niður. Það eru ítrekaðar sögur af því í íslensku samfélagi. Lögreglustjórarnir voru ekki nógu hlýðnir á sínum tíma og ríkislögreglustjóraembættið var stofnað ofan við þá. Þetta er það sem ég hef verið að heyra alla mína tíð, alltaf þegar verið er að skapa nýjar kringumstæður, sameina stofnanir eða slíta þær í sundur þar sem verða síðan mannaskipti á toppnum, þá vil ég bara benda landsmönnum á og þeim sem þekkja betur til heldur en ég í þessu tiltekna atriði: Fylgist með því hver það er sem dettur úr. Er einhver pólitík þar að baki?