150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[14:53]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Við erum þó sammála um það, svo að maður haldi sig við viðtengingarháttinn, að það hefði átt að fara aðra leið. Ég get ekki fallist á það með hv. þingmanni að í þessu máli sé og hafi verið eðlilegt að fela ríkislögmanni að grípa til ýtrustu varna og hafna þar með bótakröfu. Ég get ekki fallist á það, enda er það svo að af hálfu stjórnvalda hafa verið látin falla ýmis ummæli eftir að sýknudómurinn féll sem fólu allt annað í sér. Þau fólu í sér afsökunarbeiðni á því hvernig farið hefði verið með sakborninga í því máli og þá dæmdu sem sýknaðir voru. Þá þegar hefur af hálfu ríkisins verið fallist á að greiða skuli bætur. Þess vegna og í því ljósi get ég ekki fallist á að það sé í hæsta máta eðlilegt að þegar málið er komið til dómstóls og greinargerð er skilað snúi ríkisstjórnin blaðinu við og segi: Nei, þetta var allt í plati. Við teljum að ríkið sé ekki bótaskylt og á þeim forsendum munum við keyra málið. Ég get ekki fallist á það sjónarmið með hv. þingmanni.