150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[15:55]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Bara til að taka af allan vafa snýst þetta ekki um líðan mína, hvað mér finnst og hvernig ég upplifi hlutina. Ég er algjört aukaatriði hér. Það sem ég hef áhyggjur af er allur sá hópur fólks sem á hverjum degi leitar réttar síns fyrir dómstólum. Það er mjög stór hópur fólks sem leitar á hverjum degi réttar síns þar, fær réttlætinu fullnægt að einhverju leyti og fær niðurstöðu í málum sem það hefur kannski beðið eftir árum og áratugum saman. Þess vegna finnst mér mjög slæmt þegar þjóðkjörinn fulltrúi lýsir yfir algjöru vantrausti á þetta kerfi af því að við höfum ekkert annað. Við höfum ekkert annað kerfi en (Forseti hringir.) dómskerfið okkar til að vinna þessi mál. Það er ákveðið með stjórnarskrá að þannig ætlum við að hafa það. Og þó að það komi stöku sinnum fyrir að maður sé ósammála niðurstöðu dóma (Forseti hringir.) er það samt þannig að í miklum meiri hluta mála getur maður mögulega verið sammála þeim. Og hvað þá? Ætlum við samt að vantreysta dómstólunum?