150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

framlagning stjórnarmála.

[16:34]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Ég vil bara taka undir með hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur. Það hefur verið áberandi hve hlutunum hefur verið haldið mikið uppi af stjórnarandstöðunni. Reyndar eru til nefndir þar sem þingmannamál voru í miklum meiri hluta þar til mjög nýlega. Mér finnst mjög mikilvægt að halda til haga því sem ég hef nú nefnt áður, að ekki verður hægt að kenna stjórnarandstöðunni um ef hér verður tímaskortur á næstu dögum. Það eru nú ekki margir dagar eftir. Mér finnst ríkisstjórnin þurfa að skýra nákvæmlega hvernig hún sjái þetta fyrir sér vegna þess að við getum ekki ætlast til þess að stjórnarandstaðan beri ábyrgð á því að ríkisstjórnin — enn og aftur — hendi fram málum á síðustu stundu þegar hún hefur haft nægan tíma þar fyrir.