150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

framlagning stjórnarmála.

[16:39]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Mig langar að taka undir orð félaga minna. Ég hygg reyndar að sjaldan hafi staðan verið jafn slæm þar sem ríkisstjórnin var allt of sein með meira en helming sinna mála inn í þingið í haust. Stjórnarandstaðan hélt uppi starfsgetu þingsins, getum við sagt, langt fram eftir vetri. Annars hefðu ekki verið nein mál að ræða því að það vantaði öll mál frá ríkisstjórninni. Ítrekuð fundarföll hafa verið í fastanefndum þingsins af því að þær hafa ekki haft nein mál til umfjöllunar. En að sjálfsögðu er það svo með þennan þingmeirihluta sem boðaði breytt vinnubrögð að á sama tíma hefur verið setið á áðurnefndum málum þingmanna í umræðu í nefndinni en þau hafa ekki verið tekin á dagskrá, það hafa ekki verið kallaðir fyrir gestir, ekki verið liðkað fyrir lausn þeirra mála úr nefnd. Þetta eru auðvitað algerlega óboðleg vinnubrögð. En síðast en ekki síst að ætla að keyra hátt í 20 mál í gegn sem dagsetningarmál, mörgum hverjum óræddum með öllu í nefndum — þetta eru ekki boðleg vinnubrögð fyrir Alþingi Íslendinga.