150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

framlagning stjórnarmála.

[16:41]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég kem hingað til að taka undir með þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað og ekki síst til að staðfesta frásögn hv. þm. Önnu Kolbrúnar Árnadóttur af því sem fram fór á fundum velferðarnefndar og þann skilning sem ég held að flestir hafi lagt í það. Þetta er eiginlega tvíþætt, annars vegar að a.m.k. úr mörgum fastanefndum berast skilaboð um að ekki sé tími til að klára, stíga síðasta skrefið í því að koma út þingmannamálum, sem þó eru fullkláruð og fullunnin af hálfu nefndar, og á sama tíma er verið að demba inn í nefndirnar málum af hálfu stjórnarinnar allt of seint. Það sem mér þykir verst er að mörg þeirra koma inn til nefnda svo ókláruð að það er einfaldlega ósætti meðal umsagnaraðila um hvernig málið skuli frágengið. Okkur er gefin ein vika, kannski tvær, til að klára samt málið. Það er alveg ljóst að það þarf að fara betur yfir þetta og krafan er eiginlega sú að það sé vel skilgreint (Forseti hringir.) hvaða mál frá stjórninni séu tæk til að koma í vinnslu nefnda, hvaða mál þurfi absalútt að klára fyrir áramót og hvaða þingmannamál fari í gegn.