150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

staðfesting ríkisreiknings 2018.

431. mál
[16:51]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér mæli ég fyrir frumvarpi til laga um staðfestingu ríkisreiknings 2018 í samræmi við ákvæði laga um opinber fjármál. Þessi ríkisreikningur fyrir árið 2018 er annar reikningurinn sem er gerður upp í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla fyrir opinbera aðila, svonefndur IPSAS-staðall, með þeim frávikum sem þriggja ára innleiðingaráætlunin gerir ráð fyrir.

Rekstrarafkoma ársins 2018 var samkvæmt ríkisreikningi jákvæð um 84 milljarða kr. Tekjur námu samtals 828 milljörðum kr. en þar af voru tekjur af virðisaukaskatti um 237 milljarðar kr. og skattar á tekjur og hagnað einstaklinga um 189 milljarðar kr. Gjöld ríkissjóðs fyrir fjármagnsliði námu 780 milljörðum kr., þar af voru rekstrartilfærslur 303 milljarðar, laun og launatengd gjöld 209 milljarðar og gjaldfærðar lífeyrisskuldbindingar 41 milljarður.

Annar rekstrarkostnaður nam 187 milljörðum, aðrir gjaldaliðir, svo sem fjármagnstilfærslur, námu 19 milljörðum og afskriftir og niðurfærslur 19 milljörðum. Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur námu 56 milljörðum, vaxtagjöld um 77 milljörðum og vaxtatekjur 21 milljarði. Hlutdeild í afkomu félaga og samrekstrar var jákvæð um 84 milljarða.

Virðulegi forseti. Efnahagsreikningur ríkissjóðs tók umtalsverðum breytingum í ársbyrjun 2017 þegar m.a. var byrjað að eignfæra varanlega rekstrarfjármuni og nú gefur efnahagsreikningurinn góða heildarmynd af eignum, skuldum og eiginfjárstöðu ríkissjóðs. Eignir alls samkvæmt efnahagsreikningi 31. desember 2018 námu 2.224 milljörðum og skuldirnar 1.611 milljarði. Eigið fé var því jákvætt um 613 milljarða og hækkaði um 117 milljarða frá ársbyrjun 2018. Handbært fé var 217 milljarðar í árslok og hækkaði um 29 milljarða á árinu.

Þess ber að geta að rekstrarafkoma ríkisreiknings er birt samkvæmt reikningsskilastaðli fyrir opinbera aðila, IPSAS, eins og ég hef áður nefnt, en heildarafkoma í fjármálaáætlun og fjárlögum er birt samkvæmt hagskýrslustaðli, GFS. Báðum aðferðum er ætlað að tryggja samkvæmni og alþjóðlega samanburðarhæfni. Afkoma ríkissjóðs samkvæmt ríkisreikningi er því ekki sambærileg við afkomumarkmið fjármálaáætlunar og fjárlaga. Í ríkisreikningi nú er birt séryfirlit, séryfirlit 9, þar sem niðurstaða er flokkuð í samræmi við GFS-flokkun fjárlaga og er jákvæð um 38 milljarða og því tæpum 6 milljörðum betri en fjárlög gerðu ráð fyrir, þ.e. á GFS-staðlinum var afkoman á árinu 2018 u.þ.b. 6 milljörðum betri en gert hafði verið ráð fyrir í fjárlögum ársins 2018.

Virðulegi forseti. Þessi ríkisreikningur sýnir afar sterka stöðu ríkissjóðs. Afkoma ársins er jákvæð, hún er umfram áætlanir. Staða eigin fjár er sterk. Sterk staða ríkissjóðs er afleiðing þess góða árangurs sem náðst hefur undanfarin ár og leiðir til þess að unnt er að halda áfram myndarlegri uppbyggingu innviða og grunnþjónustu ríkisins.

Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til fjárlaganefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.