150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

breyting á ýmsum lögum um skatta.

432. mál
[17:26]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi fyrri lið andsvarsins má alveg segja sem svo að menn vilji vera varkárir með því að setja þak á fjölda bifreiða sem njóti ívilnunar. En ég held að það sé bara heiðarlegt að senda út þau skilaboð að við séum að reyna að leiða fram breytingu og það hafi gengið vel. Við lítum ekki þannig á að breytingin eigi að vera varanleg og við viljum heldur ekki senda út þau skilaboð. Það á ekki að koma neinum á óvart að við erum að fara í gegnum breytingaskeið sem endar vonandi með því að við getum tekið vistvænar bifreiðar í notkun og þá verður framleiðslukostnaðurinn vonandi orðinn lægri og sambærilegri við framleiðslukostnað annarra bifreiða þannig að þörfin fyrir þessar miklu ívilnanir fjari smám saman út. Á meðan við erum í þeirri óvissu erum við að skammta inn fjöldann og setja tímatakmörk á gildistíma breytinganna.