150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

breyting á ýmsum lögum um skatta.

432. mál
[17:32]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Svo er hitt sem mig langar að spyrja um. Núna berast fregnir af því, og það hefur reyndar verið í bígerð í ansi mörg ár, að menn séu að prófa sig áfram með rafmagn á svipaðan hátt í flugvélum og í bílum. Þar eru að verða nokkuð stórstígar framfarir og spár benda til þess miðað við þann árangur sem náðst hefur að við getum farið að sjá jafnvel farþegaflugvélar, smærri til að byrja með en stærri síðar, sem geta verið knúnar rafmagni að öllu leyti. Það er áhugavert fyrir menn sem vilja kynna sér það að vita að í Bresku Kólumbíu í vesturhluta Kanada er fyrirtæki sem heitir Harbour Air undir stjórn Gregs McDougalls að fara að gera flugprófanir á 750 kílóvatta eða hestafla mótor í lítilli flugvél sem er áætluð til notkunar í farþegaflug. Ég held að þetta sé ákaflega spennandi kostur sem gæti nýst vel á Íslandi af sömu ástæðum og með önnur ökutæki eða önnur farartæki. Ég mælist til þess að þetta „spektrúm“ verði aðeins víkkað, verði víkkað í það að við tölum um farartæki en ekki eingöngu ökutæki.

Spurningin er þessi: Getum við átt von á því að íslenskir flugmenn eða flugrekendur muni njóta álíka niðurfellinga eða hvata í skattkerfinu til að koma slíkum flugvélum til landsins ef þessi tækni gefur góða raun?