150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

breyting á ýmsum lögum um skatta.

432. mál
[17:52]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil enn og aftur þakka hæstv. ráðherra fyrir framlagningu þessa máls, ágæta framsögu og þann augljósa vilja ríkisstjórnarinnar sem kemur fram í þessu frumvarpi til að gera eitthvað af alvöru í loftslagsmálum og að setja upp þá hvata sem þarf til þess að við þegnarnir veljum réttu og heppilegustu lausnirnar fyrir framtíðina og fyrir loftslagið.

Ég nefndi í andsvörum við hæstv. ráðherra nokkur atriði áðan sem ég ætla aðeins að útvíkka eða tala aðeins meira um. Ég nefndi í fyrsta lagi sumarhúsin og þar með talið önnur aðsetur manna í sambandi við hleðslustöðvarnar. Þar eru fleiri sjónarmið en bara þau að það eigi að leyfa fólki að setja upp hleðslustöðvar úti um allar grundir. Þetta kemur líka inn á það að til þess að við þurfum ekki að vera með öll ökutæki sem eru rafknúin með 400–600 km drægni í framtíðinni skiptir verulegu máli að menn eigi þess kost að setja niður hleðslustöðvar á sem flestum stöðum. Þannig hefur til að mynda Alþingi ákveðið að útbúa sín bílastæði þannig að hluta að þar séu hleðslustöðvar svo að menn geti hlaðið bíla sína hér og komist heim aftur á rafmagni. Þetta skiptir máli í því tilliti að minni rafhlaða í svona bíl er léttari og þar með er minna álag á vegi og einnig minni umhverfiskostnaður af förgun rafhlöðunnar eða endurvinnslu þegar þar að kemur. Þannig að það eru ýmis sjónarmið sem þarna koma inn en ég treysti því að hv. efnahags- og viðskiptanefnd muni líta á þessi atriði. Einnig varðandi fjölda bifreiðanna, í þessu frumvarpi er lagt til að hann sé, að sinni, 15.000. Þar erum við, eins og ég gat um áðan, með tiltölulega lítinn fjölda eða litla hlutdeild í heildarbílaflota landsmanna. Hæstv. ráðherra kom einmitt inn á það að auðvitað verður allt þetta að vera hluti af þeirri hugsun sem við erum að fara í í sambandi við heildarorkuskipti. Á einhverjum tímapunkti munum við væntanlega þurfa að trappa út ívilnanir á þessa bíla og vonandi, eins og hæstv. ráðherra kom raunar inn á áðan, mun það verða þannig að þessar bifreiðar verði jafn dýrar eða jafnvel ódýrari í framleiðslu en þær bifreiðar sem knúnar eru jarðefnaeldsneyti.

Mig langar að síðustu að nefna eitt sem er ekki í frumvarpinu en hefði kannski verið ástæða til að skoða sérstaklega, einkum og sér í lagi í ljósi þeirrar umræðu sem hefur aðeins borið á núna að undanförnu, að metanbílar og notkun metans hafi ekki náð því flugi sem menn höfðu vænst. Eins og hv. þingmenn þekkja er notkun metans afar góð leið til að hindra myndun gróðurhúsalofttegunda — eða kannski er ekki rétt að orða það þannig að það sé hindrun á myndun gróðurhúsalofttegunda heldur önnur útgáfa af þeim sem er minna virk og ekki eins hættuleg andrúmsloftinu. Það ætti kannski að skoða það í hv. nefnd hvort það sama ætti að gilda um uppsetningu á metanstöðvum. Þar væru líka einhvers konar ívilnanir til þess að reyna að ýta undir framþróunina í þessu. Ég held að ég muni rétt að það sé á næsta ári sem gasgerðarstöð Sorpu á höfuðborgarsvæðinu tekur til starfa af fullum krafti. Ég vona að ég sé ekki að fara rangt með nýjustu tíðindi af þeirri stöð. Það mun skipta mjög miklu máli en það mun líka skipta máli að við séum með raunverulega hvata til að setja upp innviði þar, ekki bara hvata í sambandi við bifreiðarnar sjálfar. Þetta skiptir allt máli og ég þykist vita að nefndin muni fara yfir þetta.

Herra forseti. Það er mikið fagnaðarefni að þetta frumvarp skuli vera komið fram og að við skulum vera að stíga þetta afar mikilvæga skref í sambandi við vistvæna orkugjafa og feta okkur í þá átt að vera að eins miklu leyti og hægt er sjálfum okkur næg um orku á þau farartæki sem við kjósum að ferðast um á.