150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

breyting á ýmsum lögum um skatta.

432. mál
[17:58]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Áhugaverður punktur sem hv. þingmaður kemur inn á varðandi metanið og nýtingu á metani. Það er rétt að þetta virðist hafa gengið hægar fyrir sig en vonast var til. Það er framleitt metan á Akureyri og í Reykjavík og ef ég man rétt getur sú metanstöð sem Sorpa hyggst koma upp á Álfsnesi annað allt að 3.500–4.000 bílum. Það eru kannski 600–700 bílar sem hægt er keyra á metani á Akureyri. Reyndar eru þar þrír strætisvagnar keyrðir á metani og það tengist kannski umræðunni áðan varðandi strætisvagna og langferðabifreiðar, að nýta orkugjafa eins og rafmagn og metan. Þannig að ég reikna með að hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson komi þá inn í það — hann situr sjálfur í efnahags- og viðskiptanefnd og það á að vísa málinu þangað — og skoði þessi mál vel í nefndinni. Það er rétt með metan eða vinnslu á hauggasi í metan, þetta er gróðurhúsalofttegund sem er 20–21 sinni hvarfgjarnari heldur en CO2 þannig að þetta er áhugavert. Við eigum töluverða möguleika á Íslandi til að nýta metan betur sem orkugjafa. Ég bara hvet hv. þingmann til að skoða þetta vel og kannski afla gagna sem snúa að því. Áherslan hefur verið mikið á rafmagn og það er spurning hvort nefndin ætti að skoða einhverja möguleika sem snúa að því að auka útbreiðslu á metani þannig að fleiri geti nýtt sér það sem orkugjafa á bifreiðar og stærri tæki.