150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

breyting á ýmsum lögum um skatta.

432. mál
[18:04]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Já, það er sennilega rétt hjá þingmanninum. Alla vega segir sú skoðun sem ég hef gert og þær sem ég hef fengið aðra til að gera fyrir mig í sambandi við gas sem orkugjafa að það sé kannski fyrst og fremst á Eyjafjarðarsvæðinu og á Suðurlandsundirlendinu sem er nægilega mikið af nægilega stórum búum til að það dygði til. Við erum, eins og ég hef komið áður inn á í ræðum hér í þinginu, bara svo fá. Það eru kannski ekki alveg sömu hvatar og gætu verið víða erlendis hvað þetta varðar. En það má til gamans geta þess hins vegar að ég held það hafi verið árið 2010 frekar en 2011 sem þáverandi hv. þm. Arndís Soffía Sigurðardóttir flutti ásamt mér og fleirum þingmál einmitt um þetta. Það var svo sem ekki afgreitt en fór til nefndar og það komu nokkrar umsagnir um það á þeim tíma.

En kannski til að árétta það þurfum við að horfa á alla þætti þegar við erum að velta fyrir okkur hvernig við ætlum að fara í þessi orkuskipti og leita allra leiða til að finna út úr því með hvaða hætti við getum notað innlenda orkugjafa til að knýja sem mest af þeim vélum, tækjum, bifreiðum o.s.frv. sem við viljum hafa í landinu.