150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

búvörulög.

433. mál
[18:40]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið, hún kom nokkuð víða við. Ég kann ekki skýringar á því hvers vegna samningurinn er ekki fylgiskjal með frumvarpinu en það er ekkert vandamál með það, það er hægt að koma honum til þingsins og til atvinnuveganefndar þegar hún fær frumvarpið til meðferðar. Hann er ekkert leyndarmál, ég hélt að hann hefði verið kynntur ágætlega þegar við gengum frá þessu. Í sjálfu sér kann ég ekki skýringar á því hvers vegna hann er ekki heftaður við gagnið en hann er ekkert læstur niðri í skúffu eða neitt því um líkt.

Eins og hv. þingmaður nefndi er snert á ýmsum þáttum í þessu. Ég bendi hins vegar á að við erum með endurskoðunarákvæði í samningnum sem gerður var 2016 og hann gildir til 2026. Við verðum að komast að samkomulagi við bændur um breytingar á þessum samningi. Það er rétt að ákveðin tækifæri eru nýtt til að reyna að ná samstöðu meðal bænda og ríkisvaldsins um að skoða m.a. verðlagsmál. Það er sérstakur kafli í samkomulaginu sem snýr að þeim þáttum. En við vorum ekki á þessu stigi að semja við bændur um breytingar á samkeppnislögum. Það er annar vettvangur til þess og það kann vel að vera að út úr þeirri vinnu sem við erum að leggja í þarna komi einhverjar tillögur sem snúa að þeim þáttum. Miðað við það hvernig textinn í samkomulaginu er finnst mér líklegt að snert verði við umræðu um þá þætti sem hv. þingmaður nefndi áðan. En ég hef ekki í þessum samningum samið um það við bændur að gera breytingar á starfsskilyrðum þriðja aðila sem í raun á enga beina aðild að samningsgerðinni sem hér er undir.