150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

436. mál
[19:30]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir er varðar starfsleyfis- og skráningarskylda starfsemi. Megintilgangur frumvarpsins er einföldun regluverks með því að fækka flokkum starfsemi sem er starfsleyfis- eða skráningarskyld með hliðsjón af stefnu ríkisstjórnarinnar um einföldun regluverks í þágu almennings og atvinnulífs. Jafnframt eru lagðar til aðrar breytingar á viðaukum laganna í þeim tilgangi að auka á skýrleika þeirra. Frumvarpið var samið í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og drög að því voru kynnt í samráðsgátt Stjórnarráðsins í október sl. Alls bárust 12 umsagnir um frumvarpið og því var breytt með hliðsjón af framkomnum umsögnum og þeim flokkum starfsemi fækkað sem fella átti brott starfsleyfis- og skráningarskyldu fyrir.

Með frumvarpinu er lagt til að flokkum starfsemi sem heyrir undir starfsleyfis- og skráningarskyldu verði fækkað. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem lúta að fækkun á flokkum starfsemi sem háð er útgáfu starfsleyfa eða er skráningarskyld. Í mörgum tilvikum er ekki nauðsynlegt að kveða á um starfsleyfis- eða skráningarskyldu til að ná fram markmiðum laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Fyrirtæki bera ábyrgð á að starfa í samræmi við gildandi löggjöf hverju sinni og geta notið leiðbeiningar stjórnvalda um gildandi reglur. Telja verður að í mörgum tilvikum geti stjórnvöld leiðbeint rekstraraðilum nógu vel án þess að starfsleyfis- eða skráningarskylda sé fyrir hendi. Óháð starfsleyfis- eða skráningarskyldu hafa stjórnvöld ákveðið eftirlitshlutverk með starfsemi sem heyrir undir lög um hollustuhætti og mengunarvarnir og getur þurft að ganga úr skugga um að hún sé í samræmi við löggjöfina.

Við mat á því hvort starfsemi skuli vera háð starfsleyfi eða skráningu var byggt á áhættumati af viðkomandi starfsemi. Þannig er lagt til að sú starfsemi sem skorar hátt í áhættumati verði áfram starfsleyfis- eða skráningarskyld en sú starfsemi sem skorar lágt verði ekki háð starfsleyfis- eða skráningarskyldu. Í viðaukum I og II með lögunum er að finna lista yfir starfsemi sem er háð starfsleyfi frá Umhverfisstofnun. Lagt er til að fækka flokkum þeirrar starfsemi sem er að finna í viðaukum IV og V og fella niður starfsleyfis- eða skráningarskyldu tiltekinnar starfsemi sem þar er tilgreind og háð er eftirliti heilbrigðisnefnda. Dæmi um flokka starfsemi sem falla brott eru áramótabrennur, garðaúðun, meindýravarnir, almenningssalerni og biðstöðvar leigubifreiða og strætisvagna.

Þá er í frumvarpinu lagt til að verkaskipting milli Umhverfisstofnunar og heilbrigðisnefnda við útgáfu starfsleyfa fari samkvæmt viðaukum I, II og IV við lögin. Þá er lagt til að viðauki III hafi að geyma lista yfir starfsemi sem skal hafa starfsleyfi með sérstökum efnisákvæðum, samanber IV. kafla laga um hollustuhætti og mengunarvarnir um sérákvæði fyrir starfsemi sem notast við lífræna leysa.

Að mati ráðuneytisins mun frumvarpið ekki hafa í för með sér kostnaðaráhrif fyrir ríkissjóð.

Virðulegi forseti. Ég hef hér rakið meginefni þessa frumvarps og legg til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.