150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

436. mál
[19:35]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við um frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Eins og hæstv. ráðherra kom inn á í framsögu sinni sættu drögin að frumvarpinu talsverðri gagnrýni og fram komu athugasemdir í samráðsgáttinni. Ég vil þess vegna spyrja hvort hann geti farið aðeins nánar út í það við hverju var brugðist áður en frumvarpið var lagt fram hér. Ég hef fengið ábendingar frá einhverjum af heilbrigðisnefndunum um að við þurfum að fylgjast vel þessu máli og fara vel yfir það í meðförum nefndarinnar. Þetta er ein spurning sem ég var með.

Síðan langaði mig að koma inn á sömu atriði og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson. Það er ekki einfalt að skilja þessi mál og í hverju breytingarnar felast. Ég sé líka að í samráðsgáttinni hefur verið lagt fram samanburðarskjal þar sem breytingar eru sýndar í öðrum lit. Ég óska eftir því að hægt verði að koma með slíkt skjal þegar málið er kynnt fyrir umhverfis- og samgöngunefnd. Einnig sé ég af athugasemdum sem fram hafa komið að erfitt sé að skilja þessa breytingu öðruvísi en að hafa til hliðsjónar reglugerð um skráningu. Er sú reglugerð þá til og er það álit ráðherra að mikilvægt sé að kynna sér hana samhliða efni frumvarpsins?