150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

436. mál
[19:37]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi tek ég undir að það þarf að fylgjast vel með öllum málum og fara vel yfir öll mál sem koma til þingnefnda. Varðandi samráðið brá ég á það ráð sem algengt er að gera þegar athugasemdir koma fram, eins og gerðist í samráðsgáttinni, að kalla á fund til mín fulltrúa heilbrigðiseftirlita og Sambands íslenskra sveitarfélaga til að ræða með hvaða móti væri hægt að mæta athugasemdum þeirra sem við og gerðum. Ég tel að það sem hér er lagt fram og er breytt frá því sem var lagt fram í samráðsgáttinni eigi í meginatriðum að mæta því og það er vel.

Það er sjálfsagt mál að koma með skjöl í umhverfis- og samgöngunefnd sem sýna breytingar á lögunum. Ég kalla sjálfur oft eftir þessu í ráðuneytinu enda miklu auðveldara að átta sig á málum með þeim hætti.

Hvað varðar reglugerðina um skráningu er það mat mitt og ráðuneytisins að þetta tvennt þurfi ekki endilega að fara saman. Ég tók þá ákvörðun að við myndum byrja á að taka lögin til umfjöllunar á Alþingi áður en við förum að klára það mál sem þar um ræðir en var vissulega kynnt á svipuðum tíma í samráðsgáttinni.