150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

436. mál
[19:41]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi, eins og ég kom inn á áðan, er það mat okkar að þetta þurfi ekki hvort tveggja að liggja fyrir á sama tíma. Reglugerðin sem hv. þingmaður kom inn á og snýr að því hvaða starfsemi væri skráningarskyld en ekki starfsleyfisskyld er í rauninni eitthvað sem við hyggjumst fara í mjög náið samráð um við Samband íslenskra sveitarfélaga og heilbrigðiseftirlitin í framhaldi af þessari vinnu. Mér finnst skynsamlegra að bíða með það þangað til við vitum með hvaða hætti frumvarpinu reiðir af. Ef þar verða gerðar breytingar gæti það haft einhver áhrif á með hvaða hætti sú reglugerð yrði sett.

Varðandi spurninguna um hlutverk heilbrigðiseftirlitanna annars vegar og Umhverfisstofnunar hins vegar er mjög mikilvægt að staðinn verði vörður um þá nánu samvinnu og leiðbeiningarhlutverk heilbrigðiseftirlitanna. Ég er mjög meðvitaður um mikilvægi þess, enda oft þau sem eiga í samskiptum, ekki síst við smærri og meðalstór fyrirtæki, og það getur oft skilað okkur miklum árangri þegar kemur að því að framfylgja í rauninni markmiðum þessara laga.

Varðandi aðrar spurningar er það eitthvað sem við munum eiga gott samráð við viðkomandi aðila um.