150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

almannatryggingar.

437. mál
[16:22]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum. Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar sem lúta að skilyrðum og útreikningi hálfs ellilífeyris en heimild til töku hálfs lífeyris kom til framkvæmda 1. janúar 2018. Er það liður í þeirri stefnu stjórnvalda að liðka fyrir sveigjanlegum starfslokum þeirra sem eru að komast á eftirlaunaaldur. Í úrræðinu felst að einstaklingum gefst nú kostur á að taka hálfan ellilífeyri frá 65 ára aldri, bæði frá almannatryggingum og lífeyrissjóðum, að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Með minnkuðu starfshlutfalli samhliða töku hálfs lífeyris úr lífeyrissjóði og almannatryggingum gefst einstaklingum kostur á að viðhalda tengslum sínum við vinnumarkaðinn og auka þannig réttindi sín í atvinnutengda lífeyrissjóðakerfinu ásamt því að safna frekari lífeyrisréttindum með frestun á töku þess hluta lífeyris sem ekki er nýttur í stað þess að fara á fullan ellilífeyri. Í þessu felst valkostur fyrir fólk sem kýs að draga úr vinnu á efri árum en nýta áfram starfsgetu sína og draga þannig úr því tekjufalli sem getur orðið við það að fara úr 100% starfi og hefja töku fulls ellilífeyris við starfslok. Á það ekki síst við um þá einstaklinga sem fá lágt hlutfall lokalauna úr lífeyrissjóði og geta þannig hækkað réttindi sín með frestun hluta lífeyris.

Samkvæmt gildandi lögum er heimilt að greiða hálfan ellilífeyri frá 65 ára aldri til þeirra sem eiga rétt á ellilífeyri frá lífeyrissjóðum og hafa fengið samþykki viðkomandi sjóða til að taka hálfan lífeyri hjá þeim og fresta töku lífeyris að hálfu. Heimildin er bundin því skilyrði að samþykkt hafi verið umsókn um áunnin réttindi hjá öllum lífeyrissjóðum og að samanlagður áunninn réttur til ellilífeyris frá lífeyrissjóðum og frá almannatryggingum verði að lágmarki jafn hár fullum ellilífeyri samkvæmt lögum um almannatryggingar, nú um 248.000 kr. á mánuði. Þá eru greiðslur hálfs lífeyris nú alfarið án tekjutenginga og hvorki er sett skilyrði um að viðkomandi einstaklingur sé enn á vinnumarkaði né að hann minnki starfshlutfall sitt.

Nú þegar liðin eru u.þ.b. tvö ár frá því að þessi valkostur var lögfestur og ákveðin reynsla er komin á framkvæmd laganna hefur verið ákveðið að leggja til nokkrar breytingar á lögunum í því skyni að gera fleiri einstaklingum kleift að nýta sér þetta úrræði. Það hefur komið í ljós að einungis 60 einstaklingar, þar af 45 karlar, hafa hafið töku hálfs lífeyris á þessum tveimur árum og virðist það helst hafa áhrif að skilyrði laganna þykja of ströng.

Hefur í því sambandi sérstaklega verið bent á það skilyrði fyrir greiðslu hálfs lífeyris að samanlagður áunninn réttur til ellilífeyris frá skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum og frá almannatryggingum verði að nema að lágmarki fjárhæð fulls ellilífeyris almannatrygginga sem er eins og áður segir um 248.000 kr. á mánuði. Það getur hamlað því að einstaklingar geti tekið hálfan lífeyri. Sjóðfélagar í lífeyrissjóðum þurfa að eiga töluverð réttindi í lífeyrissjóðum til að geta nýtt sér úrræðið en þeir sem eiga takmörkuð réttindi, t.d. þeir sem hafa verið í láglaunastörfum og þá ekki hvað síst konur, eiga aftur á móti ekki kost á töku hálfs lífeyris. Rökin fyrir því að þetta skilyrði var sett á sínum tíma í lögin munu vera þau að ef einstaklingar sem eiga lítinn rétt í lífeyrissjóðakerfinu sækja um hálfan lífeyri kunni samanlagður lífeyrir þeirra úr lífeyrissjóðakerfinu og almannatryggingakerfinu ekki að nægja þeim til framfærslu og að þeir þyrftu þá að leita aðstoðar sveitarfélaga um framfærslu. Aftur á móti má benda á að þessir sömu einstaklingar hafa alltaf þann kost að sækja um fullan ellilífeyri í almannatryggingum við 67 ára aldur og hækka þannig ráðstöfunartekjur sínar. Þá vil ég leggja áherslu á að mikilvægt er að Tryggingastofnun gæti vel að leiðbeiningarskyldu sinni þegar einstaklingar sækja um að hefja töku lífeyris áður en hinum lögbundna 67 ára lífeyristökualdri er náð þar sem svokölluð snemmtaka lífeyris hefur í för með sér varanlega lækkun lífeyris.

Í frumvarpi þessu er lagt til að framangreint skilyrði verði afnumið með það að markmiði að fleiri einstaklingum verði gert kleift að nýta sér úrræðið, ekki síst þeim sem ekki hafa áunnið sér mikil réttindi í lífeyrissjóðakerfinu. Það eiga ekki að vera forréttindi ákveðins hóps einstaklinga að geta tekið hálfan lífeyri, þ.e. þeirra sem hafa áunnið sér töluverð réttindi í lífeyrissjóðum um ævina, heldur á það að standa til boða öllum þeim sem hafa starfað á vinnumarkaði og greitt í lífeyrissjóði.

Virðulegi forseti. Eins og ég vék að í upphafi eru greiðslur hálfs ellilífeyris nú með öllu ótengdar tekjum lífeyrisþega, ólíkt því sem gildir um aðrar lífeyrisgreiðslur í almannatryggingakerfinu. Eins og kunnugt er hafa verið gerðar miklar breytingar á ellilífeyriskerfinu á undanförnum árum og er það nú mun einfaldara og skýrara en það kerfi sem við bjuggum við fyrir einungis örfáum árum. Ég vil stuðla að því að við flækjum ekki kerfið aftur, heldur reynum að halda í þann einfaldleika og skýrleika sem náðst hefur með breytingunum sem gerðar voru. Það má aftur á móti ekki bitna á sanngirni í kerfinu en það er að mínu mati í andstöðu við meginmarkmið almannatryggingalaga að einstaklingar sem eiga ekki rétt á lífeyri frá almannatryggingum vegna tekna sinna geti engu að síður fengið greiddan hálfan lífeyri þar sem hálfur lífeyrir er samkvæmt gildandi lögum með öllu óháður öðrum tekjum lífeyrisþega.

Til að bregðast við þessu er lagt til í frumvarpinu að greiðslur hálfs lífeyris verði tekjutengdar með þeim hætti að fjárhæð hálfs lífeyris lækki um 45% af tekjum lífeyrisþega, þ.e. í sama hlutfalli og gildir um greiðslur fulls ellilífeyris. Í því skyni að útiloka ekki möguleika fólks til töku hálfs lífeyris vegna tekjutengingarinnar er gert ráð fyrir að sett verði hátt frítekjumark sem verði almennt og gildi fyrir allar tekjur lífeyrisþega. Er lagt til að frítekjumarkið verði 3,9 millj. kr. á ári, þ.e. sem nemur 325.000 kr. á mánuði. Tekjur lífeyrisþega undir 325.000 kr. á mánuði munu þannig ekki hafa áhrif á fjárhæð hálfs ellilífeyris, verði frumvarpið að lögum, en tekjur umfram frítekjumarkið munu skerða greiðslurnar um 45% og falla niður þegar tekjur lífeyrisþega verða um 600.000 kr. á mánuði.

Í þriðja lagi er í frumvarpi þessu lagt til að það skilyrði verði sett fyrir greiðslu hálfs lífeyris að einstaklingur sé enn á vinnumarkaði. Ástæða þessa er sú að upphaflegur tilgangur úrræðisins var að auka sveigjanleika fólks við starfslok og stuðla að því að einstaklingar á vinnumarkaði geti minnkað við sig vinnu og þannig starfað lengur á vinnumarkaði en ella. Því er gert ráð fyrir að heimild til að taka hálfan lífeyri verði bundin því skilyrði að viðkomandi sé enn í starfi en að hámarki í 50% starfshlutfalli. Ekki er gerð tillaga um ákveðið lágmarksstarfshlutfall en ef um mjög lágt starfshlutfall eða mjög lág laun er að ræða er gert ráð fyrir að Tryggingastofnun ríkisins meti það í hverju tilfelli hvort skilyrðið um atvinnuþátttöku og starfshlutfall viðkomandi sé uppfyllt. Mætti í því sambandi líta til fyrri atvinnutekna eða reiknaðs endurgjalds, t.d. undanfarin þrjú ár, sem geti gefið vísbendingu um hvert starfshlutfall viðkomandi er og hvort skilyrðið um að að hámarki 50% starfshlutfall sé uppfyllt.

Virðulegi forseti. Auk þeirra efnislegu breytinga sem ég hef rakið eru í frumvarpinu lagðar til nokkrar aðrar breytingar sem nauðsynlegar þykja vegna þeirra efnislegu breytinga sem felast í frumvarpinu. Hér ber helst að nefna að gert er ráð fyrir að allar fjárhæðir, hvort sem um er að ræða fjárhæðir bóta eða frítekjumarka, miðist við heil ár en ekki mánuði enda byggjast útreikningar bóta samkvæmt lögum um almannatryggingar almennt á árstekjum lífeyrisþega sem er jafn dreift á alla mánuði ársins.

Einnig er lagt til að skilyrði gildandi laga um að fyrir liggi samþykki lífeyrissjóða fyrir töku hálfs ellilífeyris nái eingöngu til þeirra lífeyrissjóða sem heimila töku hálfs lífeyris. Staðan í dag er sú að ekki er öllum lífeyrissjóðum unnt að bjóða einstaklingum upp á hálfan ellilífeyri og þykir því rétt að skilyrði laganna takmarkist við samþykki þeirra lífeyrissjóða sem umsækjandi hefur áunnið sér réttindi í og jafnframt heimila töku hálfs lífeyris. Þetta á ekki síst við um þá sem hafa áunnið sér réttindi í erlendum lífeyrissjóðum en algengt er að erlendir lífeyrissjóðir heimili ekki töku hálfs lífeyris. Þykir ekki sanngjarnt að slíkur ómöguleiki komi í veg fyrir rétt einstaklinga til töku hálfs lífeyris hér á landi.

Þá skal þess getið að verði frumvarp þetta að lögum er gert ráð fyrir að með breytingu á reglugerð um sveigjanlega töku ellilífeyris og heimilisuppbótar verði heimild þeirra sem hafa hafið töku ellilífeyris til að taka hálfan ellilífeyri í stað fulls lífeyris framlengd til 1. janúar 2021. Heimildin mun að öðrum kosti renna út um næstu áramót. Verði lífeyrisþegum sem fá fullan ellilífeyri þannig áfram gefinn kostur á töku hálfs lífeyris í stað fulls lífeyris í kjölfar þeirra breytinga sem gert er ráð fyrir í frumvarpi þessu.

Að endingu legg ég áherslu á að það takist að afgreiða þetta mikilvæga mál sem allra fyrst þannig að þær breytingar sem í því felast og ég hef rakið í ræðu minni geti öðlast gildi sem fyrst, jafnvel þótt þær kunni tímans vegna að koma til framkvæmda eilítið síðar en ráð var fyrir gert.

Áður en ég enda ræðuna vil ég segja að frumvarpið er unnið í góðu samstarfi við m.a. Landssamband eldri borgara. Sérstakur starfshópur er starfandi sem í eru fulltrúar Landssambands eldri borgara og er hann að fara yfir allt lífeyriskerfið gagnvart eldri borgurum. Hann sendi frá sér samhljóða bókun og hvatti til þess að þetta frumvarp yrði samþykkt í óbreyttri mynd á þinginu og það sem fyrst.

Að lokinni þeirri umræðu sem mun fara fram og ég hlakka til að taka þátt í legg ég til að frumvarpinu verði vísað til umfjöllunar hv. velferðarnefndar Alþingis.