150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

almannatryggingar.

437. mál
[16:34]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða frumvarp félags- og barnamálaráðherra um hálfan lífeyri. Það er hið besta mál. Ég gagnrýndi þau lög sem voru sett á sínum tíma, eins og ráðherra veit, og opnuðu eiginlega eingöngu leið fyrir þá sem höfðu háar tekjur til að komast inn í þetta kerfi. En ég er samt svolítið efins, grunar að við séum enn að ala upp skerðingarskrímsli, þetta bútasaumaða skrímsli sem við höfum búið til í almannatryggingakerfinu. Að við séum að búa til enn einn flækjufótinn í kerfinu. Við verðum að átta okkur á því að það er ótrúlega stór hópur þarna úti sem er ekki búinn að vinna sér inn neinn svakalegan lífeyri og í þeim hópi eru að stærstum hluta konur sem eru með mjög lágan lífeyri. Samkvæmt þessu frumvarpi virðist það verða á valdi Tryggingastofnunar að meta í hverju tilfelli hvort viðkomandi einstaklingar fái að vera inni í þessu kerfi eða ekki. Ég segi fyrir mitt leyti að mér finnst það óeðlilegt í sjálfu sér. En ástæðurnar skil ég líka vel vegna þess að þarna er eiginlega verið að koma í veg fyrir að viðkomandi einstaklingar lendi hreinlega í fátæktargildru, fái minni tekjur en þeir væru með almennt.

Ég spyr ráðherra: Hefði ekki verið betra að hugsa þetta kerfi aðeins öðruvísi og hreinlega láta bara frítekjumörkin ráða? Segjum að einstaklingur með hálfan lífeyri, sem á kannski rétt á 240.000 kr. úr lífeyrissjóði og fær 120.000, fengi að vinna þangað til hann væri kominn upp í 325.000 kr. tekjur án þess að nokkuð skertist. Það væri miklu einfaldara að gera kerfið (Forseti hringir.) þannig að við hefðum bara frítekjumark sem réði en ekki lífeyrissjóðinn sjálfan hálfan.

(Forseti (HHG): Mistök hafa orðið við skráningu andsvara hérna rétt áðan. Það eru fjórir en ekki þrír hv. þingmenn sem hafa óskað eftir að veita andsvar. Því verður ræðutíminn ein mínúta á svar á eftir en ráðherra hefur tvær mínútur til að svara í þetta sinn.)