150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

almannatryggingar.

437. mál
[16:47]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna. Mig langar í fyrra andsvari að inna hæstv. ráðherra eftir því hvort hafi farið fram einhvers konar mat, eða ágiskun, skulum við segja, í ráðuneytinu á því hversu líklegt sé að frumvarpið muni raunverulega fjölga þeim sem velja þennan kost. Ég held að ég og hæstv. ráðherra getum verið sammála um að það að gera starfslok sveigjanleg, sem er ætlun þessa frumvarps, er sannarlega jákvæð breyting. Þess vegna væri ágætt að heyra það frá hæstv. ráðherra hvort ráðuneytið hafi með einhverju móti verið í færum til að meta það, annaðhvort eitt sér eða í samvinnu við, eins og hæstv. ráðherra kom inn á, Landssamband eldri borgara, því að það væri sannarlega leiðinlegt ef þessi breyting yrði til þess að aðrir 60 gripu til þess að taka hálfan lífeyri og þá væri þetta sannkallað hænuskref.