150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

almannatryggingar.

437. mál
[16:48]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Það er alla vega alveg ljóst að það er ekki til nein djúp rannsókn í ráðuneytinu á því hvaða áhrif þetta muni hafa hjá öllum þeim stóra hópi sem þarna er undir. Ég held að það sé einfaldlega erfitt að vinna slíkt þannig að vel sé vegna þess að þetta byggist á því að sá rammi sem við smíðum utan um þetta mun valda því að hver og einn setur sig inn í þetta módel og fer að hugsa: Vil ég gera þetta svona? Get ég gert þetta svona? Svo fer viðkomandi og ræðir við vinnuveitanda sinn um hvort það sé mögulegt o.s.frv. Það er því erfitt að mæla þetta beint fyrir fram. En ég held að það sé alveg ljóst að kynjahlutföllin eins og þau birtast hjá þeim sem hafa verið að nýta sér þetta benda til þess að við höfum ekki náð utan um það. Hvað það varðar erum við að tryggja ákveðna opnun með þessum breytingum. Af því einu og sér ætti að verða að draga þá ályktun að það sé hægt að ná fram breytingu. En hitt verður auðvitað bara að skýrast og koma í ljós.