150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

almannatryggingar.

437. mál
[16:51]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi vinnu starfshópsins sem nú er að skoða þetta allt saman á svolítið víðum grunni, þá liggur ekkert fyrir þar. Í erindisbréfinu hefur hann nokkuð vítt hlutverk þannig að að sjálfsögðu er þetta undir líkt og margt. Líkt og þingmaðurinn benti á viljum við sjá aukinn sveigjanleika í þessu kerfi. Það er það sem var reynt með þessum lögum á sínum tíma, að þetta þyrfti ekki að vera af eða á. Það krefst líka svolítið breyttrar hugsunar hjá þeim einstaklingum sem þarna eru undir og hjá vinnumarkaðnum. Allt sem stefnir í þá átt að auka þann sveigjanleika held ég að sé bara af hinu góða og á alltaf að vera undir í allri vinnu. Þess vegna er ég ánægður með þetta frumvarp hérna — sem væri nú sérstakt ef ég væri ekki þar sem ég er að mæla fyrir því — vegna þess að það gerir einmitt ráð fyrir því að auka þennan sveigjanleika og gera fleirum kleift að nýta hann.