150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

almannatryggingar.

437. mál
[16:54]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félags- og barnamálaráðherra fyrir andsvarið. Nú er það svo að þetta er fjórða þingmálið á skömmum tíma sem kemur frá hæstv. félags- og barnamálaráðherra sem ætlunin er að ljúka fyrir áramót. Ef lögin eiga að öðlast gildi 1. janúar hefði ég talið að það væri ákjósanlegt að Alþingi væri búið að afgreiða frumvarp til laga um breytingu á lögum fyrir þann tíma sem þau eiga að öðlast gildi, eftir orðanna hljóðan. Þess vegna var spurt að því. En ef það breytir engu mun umrætt ákvæði 3. gr. taka breytingum í nefndinni. Sú sem hér stendur og er formaður hv. velferðarnefndar hefur a.m.k. ekki fengið neinar „ordrur“ um að ekki verði þinghlé yfir jól og nýár.