150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

almannatryggingar.

437. mál
[16:55]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Sá sem hér stendur hefði gaman af því að vera hér í þingsal og takast á við hv. formann velferðarnefndar á milli jóla og nýárs, svo það sé sagt. En þegar ráðherra leggur fram frumvarp gerum við að sjálfsögðu ráð fyrir því að það taki gildi sem fyrst. Það er bara almennt og það hefur verið í flestum frumvörpum sem alla vega ég hef lagt fram og það er einfalt mál að breyta dagsetningu. Og til að taka af allan vafa um þetta var þetta frumvarp á þingmálaskrá í febrúar næstkomandi þannig að við erum einfaldlega að taka okkur á, m.a. fyrir hvatningu hv. þingmanns hér á síðustu vikum, og koma með frumvarpið fyrr þannig að nefndin hefur bara góðan tíma til að vinna þetta mál. Það var gert ráð fyrir því að það yrði lagt fram í febrúar. Þannig að ég er eiginlega hissa á því að þegar við erum að koma með málið núna, tveimur mánuðum eða þrem mánuðum á undan áætlun, er formaður velferðarnefndar engu að síður pirraður yfir því að málið sé ekki að koma fram á réttum tíma. Þetta er alfarið í höndum nefndarinnar. Hún tekur þetta mál til sín og vilji hún afgreiða það eftir áramót er einfalt að breyta gildistökuákvæðinu.