150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

almannatryggingar.

437. mál
[16:56]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum enn að ræða mál félags- og barnamálaráðherra um hálfan lífeyri. Það er margt furðulegt í þessu frumvarpi og eitt af því, eins og komið hefur verið inn á, er að í e-lið 1, gr. er lagt til að heimild til töku lífeyris verði bundin því skilyrði að umsækjandi sé á vinnumarkaði og sé þó ekki í meira en hálfu starfi. Hvað skeður ef viðkomandi er í meira en hálfu starfi? Það virðist ekki koma neitt fram, en kannski ráðherra gæti svarað því hvað verður um það fólk sem fer fram yfir hálft starf, hvort og þá hvaða viðurlög taki gildi. Kemur full skerðing til ef fólk fer 1% fram yfir hálft starf, og hvar liggja mörkin í því?

Það kemur líka algjörlega skýrt fram á öðrum stað í frumvarpinu að miða á við undanfarin þrjú ár, sem ætti að gefa vísbendingar um starfshlutfall viðkomandi, hvort skilyrði laganna um starfshlutfall sé að hámarki 50%. Hámarkið er 50%. Það má vera lægra en eins og ég hef bent á vitum við að fólk sem er á lægstu launum fær kannski um 55–60% af þeim launum í lífeyri þegar það á að fara á lífeyrissjóðsaldur. Við vitum að helmingurinn af því er ekki mikill peningur, ekki nema kannski 170.000–180.000 kr., og þá erum við komin niður í 80.000–90.000 kr, sem er helmingurinn af því. Það er svo lítið að þarna munu margir stoppa og hugsa með sér: Ja, það þýðir ekkert fyrir okkur að vera að fara út í hálft starfshlutfall; ef hlutaðeigandi er með 320.000 kr. má hann ekki fara yfir 160.000 kr., hann má ekki fara yfir það. Ef hann er með þá tölu og það sem hann fær úr hálfum lífeyri er hann kominn í vond mál og þá hlýtur Tryggingastofnun að grípa þar inn í. Ég mun skoða þetta mál mjög vandlega í meðförum velferðarnefndar.

Ég set líka spurningarmerki við það að hámarkið í þessu er 325.000 kr. Um leið og þú ert kominn í þá tölu, með samanlögðum hálfum lífeyri og hálfri vinnu, fara skerðingar að virka. Þá erum við ekki að tala um hálf laun til að ná þessari upphæð. Við erum þar á mörkunum. Ef einstaklingur hefur áður verið með 400.000 kr. í laun, er kominn niður í 200.000 og fær hálfan lífeyri, 120.000, er hann kominn í þessi mörk. Þetta er ofboðslega lágt. Þá byrjar þetta að skerðast mjög fljótt. Ég segi fyrir mitt leyti að þarna hefðum við kannski getað miðað við meðallaun í viðkomandi stétt. Það hefði skilað mun betri nálgun, en kannski ráðherra geti upplýst mig um hvaðan þessi 325.000 kr. tala er komin og líka að það verði 0 kr. við 600.000 kr. Mér finnst spurning við hvað er miðað, varla eru það meðallaun sem eru þarna undir.

Ég vona að ég fái svör við einhverjum af þessum spurningum. Og jú, það eru fáir sem nýttu sér gamla úrræðið og ég held að það hafi bara verið vegna þess að margir vissu ekki af því. Fyrir utan það tóku þau lög gildi 1. janúar 2018 en síðan var ekki búið að ganga frá samþykktum lífeyrissjóða fyrr en 1. september 2018, eða sjö til átta mánuðum eftir að þessi lög tóku gildi, þannig að menn höfðu ekki einu sinni tækifæri til að nýta sér þetta. Hér er fullur ellilífeyrir frá almannatryggingum 248.105 kr. þannig að við vitum að hálfur er 124.050 kr., 124.052,5 nákvæmlega. Frítekjumörkin gefa þar af leiðandi 325.000 kr. En það er kannski svolítið skrýtið að ef við drögum það frá, eins og ég gerði, eru það ekki nema 200.000 kr. Mér finnst þetta mjög lágt og ég skil ekki alveg hvernig þetta var fengið út. Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra en ég vona að ég fái einhver svör við þessu frá ráðherra. En ef ég fæ þau ekki verð ég bara að reyna að fá svörin í velferðarnefnd.