150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

heilbrigðisþjónusta.

439. mál
[17:22]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir kynningu á frumvarpinu í 1. umr. Það er eitt sem ég hef verið að velta fyrir mér af því að nú er þetta heildstæð stefna og til hamingju með það, þó að maður geti aldrei verið sammála um allt enda erum við hæstv. ráðherra alls ekki í sama flokki, ekki enn þá a.m.k. Það sem ég velti fyrir mér, af því að ég er, hvað á ég að segja, sveitatútta norðan úr landi þar sem sveitarfélög hafa verið sameinuð eins og gengur, Fjallabyggð, og hef fengið allmargar fréttir af því — ég ætla ekki að tala um sjúkrabílana, nota bene, ekki núna, það kemur næst, einhvern tíma seinna. Hér er rætt um fyrsta stigs þjónustu, annars stigs og þriðja stigs. Fyrsta stigið er næstum því hagnaðardrifið því að eftir því sem komur eru fleiri til þín þá færðu greitt fyrir viðkomandi sjúkling. Ég hef spurnir af því að jafnvel sé verið að láta einstaklinga, sem eru virkilega illa á sig komnir og greinilegt að þurfa að fara beint í annað stigið, sjúkrahúsþjónustuna, millilenda á sjúkrahúsinu á Siglufirði til að fá af því þær rentur sem gert er ráð fyrir.

Nú erum við náttúrlega bara í 1. umr. Ég velti fyrir mér hvort ráðherra hafi hugsanlega séð fyrir sér eitthvað til að koma í veg fyrir þetta, vegna þess að ef að líkum lætur getur þetta hreinlega verið lífshættulegt. Það er afskaplega mikilvægt að a.m.k. þegar fyrsta hjálp mætir á staðinn, hversu marga hálftíma sem hún er frá Siglufirði eða Dalvík til Ólafsfjarðar, sem dæmi, sé það a.m.k. metið án þess að líta nákvæmlega á þennan þátt, hvort viðkomandi þurfi að fara beinustu leið inn á Sjúkrahúsið á Akureyri til að fá þjónustu. Ég veit að hæstv. ráðherra skilur hvað ég meina. Þetta er það sem ég hef velt fyrir mér, ég hef áhyggjur af þessu.