150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[17:59]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Samgönguáætlun kemur fram hér á aðventu sem við reiknuðum nú með við afgreiðslu samgönguáætlunar í febrúar, það er stutt síðan við afgreiddum mjög metnaðarfulla samgönguáætlun í febrúar, að kæmi inn í haust og með þeim breytingum sem lagt var upp með í febrúar. Samgönguáætlun var skýr þá, í hana var lögð gríðarlega mikil vinna af hálfu nefndarinnar, bæði í fundarhöldum með fólki alls staðar að af landinu, ráðuneytinu og Vegagerðinni. Hún var afgreidd með auknum meiri hluta út úr þinginu, sem var sérstakt, og hún var afgreidd í mikilli sátt við landssamtök sveitarfélaga um allt land. Meginmarkmið áætlunarinnar gerðu ráð fyrir því að blað yrði brotið í samgöngumálum, farið í flýtiframkvæmdir á grundvelli viðbótargjaldtöku þar sem ávinningur þeirra sem þyrftu að greiða væri alltaf meiri en kostnaðurinn og að við fengjum mjög öfluga þátttöku erlendra ferðamanna í þessari uppbyggingu með okkur. Við lögðum áherslu á fjölfarnar leiðir inn og út af höfuðborgarsvæðinu. Það var ekki að ástæðulausu heldur var það einmitt gert vegna þess að þar eru einhverjar dýrustu framkvæmdirnar sem mjög brýnt er að fara í og með því losnar um mikið fjármagn sem getur flætt um allt land, jafnvel bæði innan höfuðborgarsvæðisins og utan þess.

Í upphafi var pólitískur ágreiningur um þessar leiðir en það má segja að nú hafi náðst um það breið pólitísk samstaða. Við erum öll að horfa í sömu átt, sama hvaða flokki við komum úr. Höfuðborgarsáttmálinn er dæmi um það, metnaðarfull áætlun sem mun gjörbreyta allri umferð og samgöngumátum hér á höfuðborgarsvæðinu ef markmiðin nást. Hann byggir nákvæmlega á sömu forsendum og við lögðum upp með í samgönguáætlun og þar koma ólíkir flokkar í meiri hluta í höfuðborginni til að mynda að þessu miðað við það hvað var hér á þingi. Sá sáttmáli var gerður með fyrirvara um samþykki Alþingis og nú er gert ráð fyrir skuldbindingum ríkisins í samgönguáætlun upp á 2 milljarða í þeirri samgönguáætlun sem við höfum úr að vinna, tillögum ráðherrans.

Nefndin á algerlega eftir að fjalla um þá forgangsröðun sem þar kemur fram. Nefndin á alveg eftir að fara ofan í þennan höfuðborgarsáttmála og sinna skyldum sínum sem samgöngunefnd þingsins og að þingið komi að því eins og öðrum samgönguáætlunum. Það blasir auðvitað við að viðkomandi ráðherra á hverjum tíma getur ekki farið um allt land og skipt landinu upp í ákveðin svæði og gert samkomulag við sveitarfélög á viðkomandi svæði og þá er bara orðið óþarft fyrir þingið að fjalla um samgönguáætlun af því það er allt orðið í samkomulagi milli ráðherrans og viðkomandi sveitarfélaga. Þetta er eitthvað sem þarf að fjalla um og þar hef ég ákveðnar hugmyndir um verkefni sem Reykjavíkurborg hefur verið að stíga skref í, og vekur athygli, eftir að sáttmálinn var gerður, sem kemur að ljósastýringum á höfuðborgarsvæðinu. Það er alveg augljóst að við þurfum viðbótarfjármagn í það strax í byrjun sáttmálans til þess að geta uppfyllt það verkefni þannig að það fari að virka.

Grundvallarmarkmiðið með þessari nálgun okkar í samgönguáætlun, sem afgreidd var hér í febrúar, var að ná svokölluðu landsátaki af stað í samgöngumálum. Ég hef áhyggjur af því að þau atriði sem urðu til þess að leiða í jörð óróa, og kannski það að ekki væri mjög djúp sátt um málið, náist ekki fram í þeirri samgönguáætlun sem við erum að fara að fjalla um. Með höfuðborgarsáttmálanum er búið að færa gjaldtökuna innan höfuðborgarsvæðisins, á hlið á höfuðborgarsvæðinu og svo innan höfuðborgarsvæðisins, en mjög lítið er um gjaldtöku að öðru leyti nema þá sérmerkt ákveðnum verkefnum. Þetta getur ekki kallast það jafnræði sem við lögðum upp með að reyna að dreifa þessari gjaldtöku sem víðast um landið og láta hana ná til þessara verkefna. Til að mynda getur engin sátt orðið um það á Reykjanesi að hátt í tíu ár skuli líða þar til Reykjanesbrautin verður fullbúin. Ekki getur heldur orðið mikil sátt um að fara í verkefnin á Suðurlandsvegi og Vesturlandsvegi og Reykjanesbraut öðruvísi en að fullklára þau þannig að ekki þurfi að koma þangað aftur eftir nokkur ár. En það var markmiðið að setja mislæg gatnamót í staðinn fyrir hringtorg og tvöföldun í staðinn fyrir 1+2 veg þó að umferðartalningar segi strangt til tekið, samkvæmt tölum Vegagerðarinnar, að ekki þurfi að fara strax í það.

Við ætluðum líka, með því að losa um fjármagn á þessum höfuðleiðum, að ná fram miklu átaki í stofn- og sveitavegum og skoða það m.a. út frá sameiningu sveitarfélaga og mörgum öðrum þáttum. Það var kannski grundvöllurinn að því að mörg landshlutasamtök sveitarfélaga voru mjög sátt við að reyna að fara þessa leið. Við erum ekki að ná að uppfylla þetta nægilega vel. Hægt er að nefna stór verkefni sem eru fyrir utan 15 ára áætlun eins og Þorlákshafnarveg sem gegnir alltaf veigameira hlutverki eftir því sem tíminn líður, til að mynda sem vöruleið. Miklir vöruflutningar eru komnir af stað um Þorlákshöfn og þeim mun bara vaxa fiskur um hrygg. Við lásum það í fréttum í gær að strax í byrjun næsta árs á að bæta við öðru flutningaskipi sem siglir í Þorlákshöfn og þar eru frekari hugmyndir í gangi um aukningu. Það er alveg ljóst að ekki er hægt að skilja Þorlákshafnarveg eftir utan samgönguáætlunar til 15 ára. Það má líka nefna leiðina milli Sandgerðis og Garðs og síðan er hægt að fara í sveitavegaverkefnin eða þessa stofnvegi hringinn í kringum landið. Hægt er að nefna hina brýnu nauðsyn á vegi norður í Húnavatnssýslu, Vatnsnesveginn, sem er kominn á annað tímabil og svo uppsveitir Borgarfjarðar og vegi víða á Suðurlandi. Ég hef líka ákveðna fyrirvara á verkefnum eins og þessum samfjármögnunarverkefnum, t.d. á Ölfusárbrú. Ég get ekki séð að 5–6 milljarða verkefni á Ölfusárbrú geti staðið undir sér með gjaldtöku bara við það að keyra yfir brúna. Það er svo stutt leið að fara í gegnum Selfoss og mikil hætta á að meginumferðin fari áfram í gegnum Selfoss ef þarf að rukka það gjald sem þarf að rukka á Ölfusárbrúnni. Það átti að vera hluti af miklu stærra verkefni hjá okkur og borgast upp af gjaldtöku sem væri á þessari leið allri.

Það sem er út undan í þessu, þó að um einhverja aukningu sé að ræða, og er verulegt áhyggjuefni, eru hafnir og flugvellir. Það er mjög alvarlegt ástand í hafnarmannvirkjum okkar. Það er mjög alvarlegt ástand á innanlandsflugvöllum okkar. Hér hefur verið rætt um Akureyrarflugvöll og Egilsstaðaflugvöll. Það þarf líka að horfa víðar. Ástandið er alvarlegt á Bíldudal, á Höfn í Hornafirði, í Vestmannaeyjum og víðar. Þarna þurfum við á virkilegu átaki að halda og það er ófjármagnað. Það sama má segja um hafnarframkvæmdirnar. Það er alls ekki nægilegt fjármagn sem fer í þau verkefni.

Ég vil einnig koma aðeins inn á, sem er ótengt þessu en þó tengt, samkomulag við höfuðborgarsvæðið um svokallaða skilavegi sem sett var í lög 2007 og hefur síðan verið frestað. Það er yfirtaka sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu á ákveðnum mannvirkjum, umferðarmannvirkjum eða vegamannvirkjum, sem hafa verið í umsjá ríkisins eða Vegagerðarinnar. Nú á þetta að fara yfir til sveitarfélaganna um áramót og ekki hefur náðst neitt samtal eða samkomulag, eins og kveðið er á um í vegalögum að skuli gera við yfirtöku sveitarfélaganna á þessum vegum. Ég vil hvetja ráðherrann til að beita sér fyrir því, vegna þeirra skyldna sem sveitarfélögin eru að takast á hendur og þess fjármagns sem komið er inn á í vegalögum, að sest verði niður og gengið frá þessu samkomulagi þannig að þetta geti gengið á milli í sátt.

Ég nefndi í upphafi, hæstv. ráðherra, að það breiða samkomulag sem náðist við afgreiðslu samgönguáætlunar í febrúar væri gríðarlega mikilvægt. Ég sé fyrir mér að þær leiðir sem nú er verið að boða geti kallað fram ágreining. Í mínum huga gefur augaleið að það mun kalla á mikla vinnu nefndarinnar (Forseti hringir.) og við munum þurfa að taka okkur gríðarlega góðan tíma í að afgreiða þetta. Því legg ég áherslu (Forseti hringir.) á að þeir 4 milljarðar sem eru til ráðstöfunar til viðbótar, nýir 4 milljarðar fyrir næsta ár, (Forseti hringir.) verði afgreiddir á vettvangi nefndarinnar eftir þeirri forgangsröðun sem Alþingi mun þá samþykkja.

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir á tímamörk.)