150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[18:10]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Við ræðum samgönguáætlun sem er hér undir og ég reikna með því að við munum heyra nokkuð skiptar skoðanir á henni, hvort sem er hjá stjórnarandstöðunni og jafnvel innan stjórnarflokkanna. En það var þó þannig að þegar samgönguáætlun var samþykkt á síðasta þingi með ítarlegu nefndaráliti var fyrirséð að þar var boðuð endurskoðun í heild á henni. Það var einkum vegna þess að samningar á höfuðborgarsvæðinu voru rétt að leggja af stað úr höfn og eins þurfti að skoða gjaldtöku, svo sem eins og vegtolla, innan fjármálaráðuneytisins. Nú liggur fyrir í samstöðu flokkanna þriggja, á ráðherragrunni, ný samgönguáætlun. Það kemur ekki á óvart að það eru ýmsar breytingar frá síðustu samgönguáætlun og í nefndaráliti okkar, sem við lögðum gríðarlega mikla vinnu í og ég átti mikinn þátt í að búa til og var ánægður með. Ég get af sömu orsökum sagt sem svo að ég er ágætlega ánægður með samgönguáætlun eins og hún liggur núna fyrir, að vísu eflaust með einum og öðrum lagfæringum. En það á eftir að koma í ljós í vinnu nefndarinnar sem ég sit í, umhverfis- og samgöngunefnd.

Ég ætla að ræða pólitísku hliðarnar í nokkrum orðum. Fyrir utan það að gefa þessari samgönguáætlun einkunn sem metnaðarfullri er þetta kannski í fyrsta skipti sem raunhæf og viðamikil samgönguáætlun sem tekur vel á öllum þáttum er lögð fram. Við horfum mjög gjarnan á þessa 12.000 km af vegum sem eru í umsjá samfélags okkar og spyrjum um forgangsröðun. Hún er núna með þeim hætti sem birtist í þessari samgönguáætlun og eflaust hægt að gagnrýna eitt og annað en í stórum dráttum heldur hún alveg vatni. Ein ástæðan er sú að þeir 12.000 km sem ég er að vitna til, sem eru þá númeraðir vegir á Íslandi ef við getum orðað það svo, það að koma þeim í það horf sem allir myndu vilja kostar okkur nokkurn veginn það sama og annars staðar í veröldinni. Við erum komin með 1.000 milljarða ríkisútgjöld og þegar við ætlum þá að taka af þeim 100, 200 eða 300 milljarða í samgöngumál verðum við að vanda okkur mjög vel við forgangsröðunina. Það er mjög auðvelt að vera með ákveðnar einfaldanir og líta svo á að það skuli í raun og veru vera deilt um eftir hverju forgangsröðunin eigi að fara. Ég lista hérna upp a.m.k. fjögur efnisatriði sem ég vil aðeins fjalla um; það er öryggið, það eru loftslagsmálin, það eru byggðamálin og það eru almenningssamgöngur og svo ætla ég að fara örfáum orðum um áhrifin á efnahagsmálin þegar þar að kemur.

Þegar kemur að öryggismálum er ljóst að tjón af völdum slysa, alvarlegra áverka og dauðaslysa í umferðinni skipta okkur mörgum tugum milljarða á ári. Það er mikilvægt að vinna bug á því og líta svo á að það sé þá fjárfesting í bættum vegum. Inn á þetta kemur svo vellíðan fólks og hagur sem við þurfum ekki að fjölyrða um. En inn í öryggismálin koma líka hafnarbætur. Það koma líka endurbætur á flugvöllum og þær skipta auðvitað verulegu máli vegna m.a. sjúkraflugs, sem er risaþáttur í heilbrigðiskerfinu hjá okkur, og eins öruggari flugleiðsögn. Öll þau öryggismál eru tekin fyrir í þessari samgönguáætlun. Við getum svo deilt um hvort það sé nægilega vel gert en það er þó gert og í ásættanlegum mæli í mínum huga.

Loftslagsmálin koma inn á styttri akstursleiðir og greiðari umferð, að sjálfsögðu. Það er einu sinni þannig að rekstur bíls á ársgrundvelli, við skulum segja meðalbíls, kostar 100 kr. á hvern ekinn kílómetra. Það er alveg ljóst að ef hægt væri að stytta akstursleiðir um þó ekki nema nokkra kílómetra eða tugi kílómetra eða hundruð kílómetra væri ávinningurinn verulegur fyrir hag almennings og atvinnurekenda og annarra en ekki síður fyrir loftslagið vegna þess að hver einasti kílómetri sem er ekki ekinn kemur loftslaginu til góða vegna minni útblásturs. Annað sem skiptir máli er lengri líftími aksturstækjanna sem eru notuð þannig að hvernig sem á það er litið felast í þeim umferðarbótum, skulum við segja, sem eru í samgönguáætluninni verulegur hagur fyrir loftslagið og loftslagsmálin. Inn í þetta koma svo orkuskipti. Ég ætla ekki að fjölyrða um þau en þessi ríkisstjórn hefur tekið orkuskipti mjög föstum tökum, hvort sem er í bílaflotanum eða á ýmsum öðrum sviðum.

Þegar kemur að byggðamálum er það sama uppi á teningnum. Það eru bæði styttingar veglína, greiðari umferð og jarðgangagerð sem skipta máli og gerir það að verkum að þessi samgönguáætlun greiðir fyrir samgöngum í byggðum landsins, ekki bara Reykjavík, ég skal koma að því á eftir, heldur um allt land þótt í misjöfnum mæli sé. Einnig tekur sú forgangsröðun mið af bæði öryggismálum og loftslagsmálum sem ég er búinn að minnast á. Það sama gildir um styrkari hafnir, bæði hvort um sé að ræða fiskihafnir eða fiskveiðihafnir fyrst og fremst eða hafnir sem taka líka til flutninga. Síðan komum við að tengivegunum þar sem verið er að leggja fram áætlun um bætta tengivegi í bæði fjölmennum og fámennum byggðum, en ég er svo sem sammála því að þar þurfi að gera verulega betur á mörgum sviðum. Ég gæti nefnt mörg dæmi um það en ætla ekki að gera það, en þetta er einn af veikari punktum þessarar samgönguáætlunar og við þurfum að skoða mjög vel hvernig við í umhverfis- og samgöngunefnd getum komið þar við sögu.

Almenningssamgöngur nefni ég líka. Þar er auðvitað verið að byggja upp samhæft strætókerfi eða rútukerfi á landinu. Þar er borgarlínan sem er sameiginleg sýn þessa stóra byggðasvæðis hér á suðvesturhorninu og ríkisvaldsins. Þegar menn tala um borgríki er ég svo sem sammála um að það sé vel hægt að nota það orð en það borgríki er ákaflega fámennt vegna þess að við erum að tala um 100.000–200.000 sálir á tiltölulega stóru svæði. Það borgríki er mjög ólíkt þeim borgríkinu sem við þekkjum í útlöndum þar sem hægt er að reka annars konar samgöngutæki en við þekkjum, hvort það heita lestir, neðanjarðarlestir eða sporvagnar eða annað slíkt. Við þurfum að beita sérstökum aðferðum til að búa til lífvænlegt borgríki, svo við notum það orð áfram, með greiðum samgöngum. Þessi borgarlínuhugmynd með aðliggjandi strætóflutningum, stokkavæðingu og öðru slíku er að mínu mati rétt leið í þeim efnum.

Við ræðum um almenningssamgöngur og nefnum þá flugið til sögunnar og umrædda skoska leið sem hæstv. ráðherra gerði grein fyrir og eins þá staðreynd að meðan ekki kemur til jafn góður eða betri flugvöllur en flugvöllurinn í Vatnsmýri verður hann þar, við skulum segja í 15 ár eða meira.

Ég get líka nefnt endurbætur flugvalla í meginkerfinu, varaflugvelli og millilandaflugvelli og síðan áhrifin á efnahag landsins, sem eru jákvæð, og minnst á veggjöld sem er ekki verið að svæfa endanlega með þessari samgönguáætlun heldur er auðvitað opið fyrir þegar á reynir að leggja þau á engu að síður, eins og lagt var til í umræddri áætlun á síðasta þingi.

Ég ætla að láta þetta vera nægjanlegt í bili en legg þá áherslu að við eigum eftir að vanda okkur við umfjöllunina í umhverfis- og samgöngunefnd.