150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[18:40]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Við ræðum samgönguáætlun til næstu fimm ára og einnig næstu 15 ára. Þessi samgönguáætlun er loksins komin fram en ég get ekki sagt að hún sé auðlesin þegar maður opnar plaggið. Ef einhver ætlaði að kynna sér hana ofan í grunninn yrði sá hinn sami fyrir nokkrum vonbrigðum vegna þess að erfitt er að gera sér grein fyrir því hvenær tilteknar framkvæmdir eru á dagskrá, hvenær þær eiga að hefjast og hvenær nákvæmlega þeim á að ljúka. Ég verð að viðurkenna að ég hefði viljað hafa áætlunina auðlesnari, helst til þess að fólk gæti á einfaldan hátt séð fyrir framkvæmdir í nærumhverfi sínu eða í nálægð við búsetu. Ég er því örlítið að kvarta yfir flækjustiginu, sérstaklega í fimm ára áætluninni.

Samgöngubætur eru eitt allra helsta og mikilvægasta verkefnið á hendi ríkisvaldsins, að tryggja samgöngur í svona erfiðu, víðfeðmu og fámennu landi eins og við búum í. Þess vegna kemur ekki á óvart að menn bíði spenntir eftir því þegar hæstv. samgönguráðherra kynnir áætlanir sínar um hvar hann ætli að bera niður í framkvæmdum, helst í náinni framtíð. Menn bíða í ofvæni og vilja fá sinn veg, helst strax á næsta ári.

Margt má um þessa áætlun segja og auðvitað erum við á frumstigi. Ég er nýbúinn að fá áætlunina í hendur og alls ekki búinn að skoða hana og vegna þess að ég er ekki búinn að lesa hana í þaula verð ég líklega leiðréttur. Umhverfis- og samgöngunefnd mun síðan að sjálfsögðu fara yfir þessa áætlun og ég á von á vandaðri vinnu í þeirri nefnd.

Það sem einkennir áætlunina við fyrstu yfirferð er allra helst það að flest stærri verkefni eru sett töluvert fram í tímann. Þannig hefur þetta verið síðan þessi ríkisstjórn tók við, í raun hefur lítið gerst. Hún hefur verið við völd í rúm tvö ár og hefur ekki gert svo mikið. Vissulega hafa menn klárað þær framkvæmdir sem hafnar voru en ekki hefur miklu verið hrundið í framkvæmd. Mér finnst þetta alltaf vera áætlanir, hugmyndir og ráðagerðir en svo bíðum við eftir framkvæmdunum. Fólkið í landinu bíður eftir þeim. Það koma alltaf nýjar áætlanir og jafnvel enn stærri en í gær, enn viðameiri, fleiri göng, lengri göng, fleiri brýr, lengri vegir — en maður sér ekki svo mikið gerast.

Vissulega verð ég að viðurkenna að mikið verkefni lá fyrir þegar þessi ríkisstjórn tók við í því að laga og viðhalda úr sér gengnu vegakerfi, þótt ekki væri nema bara að gera við og lagfæra vegi sem voru mjög illa farnir. Ég verð að hrósa ríkisstjórninni fyrir að það hefur tekist ágætlega. Það er búið að lagfæra, það er búið að malbika úr sér gengna vegi sem voru að hruni komnir og lagfæra hér og þar. Ég gef ríkisstjórninni plús fyrir það, það var löngu kominn tími á þetta, en hvaða stórframkvæmdir hafa verið framkvæmdar síðustu tvö árin eða byrjað á? Það er ekki margt sem kemur upp í hugann, ég verð að játa það, herra forseti. Jú, það er 3 km kafli, og tæplega þó, austan við Hveragerði sem er ekki alveg lokið en er verið að ljúka, 3 km kafli á þjóðvegi 1 milli Selfoss og Hveragerðis. Svo eru lagfæringar á Grindavíkurvegi sem ber að þakka, lagfæringar á kafla sem voru löngu tímabærar. Dýrafjarðargöng voru kláruð, það lá þó fyrir. Það eru aðrir minni háttar spottar hér og þar um landið. Auðvitað gleymi ég einhverju en allir sjá að þetta eru ekki mikil afrek. Það eru tæplega 50 ár síðan við brúuðum jökulárnar á Skeiðarársandi og var þá allt annað umhverfi með tilliti til tækja, mannafla og fjármagns. Það var afrek og ég velti stundum fyrir mér hvernig standi á því að við getum ekki afrekað eins mikið og eins hratt og áður fyrr. Hér virðist hver einasti kílómetri í vegi vera fokdýr. Þótt aðeins sé verið að breyta tveggja akreina vegi í þriggja akreina veg kostar það milljarða á milljarða ofan. Hvers vegna? Hvers vegna þurfa t.d. göng undir veg að kosta svona mikið og taka svona langan tíma, eins og sunnan við Hafnarfjörð? Það er vegna vinnubragðanna, það þarf að hanna, teikna, grafa í sundur og slá upp, steypa, bíða eftir að steypan þorni, slá upp og steypa að nýju, endurtaka þetta fjórum, fimm sinnum meðan verið er að gera ein göng, fyrst gólf, svo veggi, síðan þak, láta þetta þorna sem tekur margar vikur og síðan að hleypa umferðinni á aftur hálfu ári eða átta mánuðum seinna með tilheyrandi töfum og hættu fyrir alla umferð á meðan á þessu stendur. Hvað kostar svona?

Ég les um og heyri að aðrar þjóðir hafi fundið upp einfaldari vinnubrögð. Þær moka í gegnum veginn, koma með forsteyptar einingar, hlaða þeim upp og loka síðan veginum. Nokkrum dögum seinna er ekið þar yfir. Þetta er miklu fljótlegra og töluvert ódýrara. Af hverju erum við ekki komnir upp úr þessu fari? Maður sér ítrekað hér á landi þegar verið er að gera göng undir vegi, eins og í Hafnarfirði og víðar, að það tekur mánuði. Það þarf einhverja menn til að teikna þetta þótt það hafi verið gert í tugi skipta. Það er ekki eins og verið sé að finna upp hjólið. Er ekki hægt að gera þetta örlítið einfaldara og afkasta örlítið meiru?

Ég ætlaði að segja miklu meira en sé að tími minn er u.þ.b. að klárast og ég er bara kominn á aðra blaðsíðu af átta. Ég ætlaði að nefna ýmislegt annað en ætla að nota þessar síðustu sekúndur til að lýsi yfir vonbrigðum, sérstaklega með það að hvergi eru neinar áætlanir um að ráðast eigi í Sundabraut. Menn virðast vera búnir að gefast upp. Þeir semja við borgaryfirvöld í Reykjavík annan hvern dag um alls konar fjárútlát en það er ekki hægt að semja um að ganga í þessa Sundabraut. (Forseti hringir.) Ég lýsi yfir vonbrigðum með þetta. Ég lýsi yfir vonbrigðum með það hversu langan tíma margir þessara hættulegu og erfiðu vegarspotta taka.