150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[19:05]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir viðleitnina við að reyna að svara þessum stóru spurningum. Þetta eru náttúrlega stórar spurningar og kannski ekki ástæða til annars en að við ræðum þetta mjög ítarlega. Það er rétt, þetta er stærsta framkvæmd Íslandssögunnar. Það er talað eins og þetta sé eðlilegasti hlutur í heimi og það er það á vissan hátt. Við þurfum augljóslega öflugan alþjóðaflugvöll. Ég get tekið undir það að við þurfum alla vega tvo stóra flugvelli á suðvesturhorninu. Síðan er spurningin hvernig fer með Reykjavíkurflugvöll í framhaldinu. En ég er ekki viss um að við þurfum endilega tvo risavaxna alþjóðaflugvelli á suðvesturhorninu ef hægt er að búa þannig um hlutina að hægt sé að tryggja gott aðgengi inn á Akureyri og Egilsstaði. Ódýrustu aðgerðarpunktarnir í skýrslunni eru það sem snýr að því að keyra akbrautir á Egilsstöðum og Akureyri til að hægt sé að taka á móti einhverjum teljanlegum fjölda fluga erlendis frá, ef t.d. er um að ræða veðurfarslegt frávik eða eitthvað verra. En ég held að ég spyrji kannski ekkert frekar í þessu andsvari til að gefa hv. þingmanni tækifæri til að svara mér varðandi afganginn af kerfinu og þá er ég að hugsa um þessa minni lendingarstaði sem skipta miklu máli fyrir íbúa á hverju svæði fyrir sig, skipta máli í neyðartilvikum, eins og ég nefndi með Fagurhólsmýri áðan og önnur dæmi eru mörg, en skipta ekki síst máli fyrir innanlandsflug og aðra sem gætu lent í öðrum uppákomum. Þegar þú lendir í neyðarástandi er mikilvægasti og besti flugvöllurinn sá sem er næstur þér, eins og þekkt er, svo lengi sem maður getur yfir höfuð lent á honum.