150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[19:38]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Við ræðum hér þingsályktunartillögu um fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2020–2024. Það er mikilvægt í þessari umræðu og þegar við horfum á samgönguáætlun fram í tímann að skynsamlegustu lausnirnar séu hafðar að leiðarljósi í vegaframkvæmdum. Þegar rætt er um samgönguáætlun spyr maður sig í fyrsta lagi hvort áætlunin sé raunhæf. Eru markmiðin sem þar birtast raunhæf þegar kemur að því að borga fyrir þau? Eða eru markmiðin bara óskhyggja sem allir sjá að muni seint rætast? Það sem mér finnst aðeins vanta í þessa umræðu er hvort markmiðin sem þar birtast séu ávallt þau skynsamlegustu, hvort forgangsröðunin sé rétt o.s.frv. Því miður hafa smáskammtalækningar, ef svo má að orði komast, verið í vegaframkvæmdum í allt of langan tíma. Við eigum að hugsa skynsamlega til framtíðar í þeim efnum, sérstaklega þegar við horfum á þá miklu aukningu sem orðið hefur í umferðinni og kröfur um betri og öruggari vegi um landið.

Af mörgu er að taka og tíminn er skammur. Ég vil byrja á að ræða sérstaklega um Reykjanesbrautina. Mikilvægar úrbætur hafa verið gerðar á síðustu misserum á vegarkaflanum frá Fitjum að Leifsstöð og síðan á Grindavíkurvegi sem hafa aukið umferðaröryggi og því ber að fagna. Nú standa yfir framkvæmdir við tvöföldun Reykjanesbrautar frá Krýsuvíkurvegi að Kaldárselsvegi. Þær framkvæmdir ganga ágætlega og þeim mun ljúka seinni part næsta árs. Að mínu mati, herra forseti, er ótækt að næsti áfangi sem bíður tvöföldunar, þ.e. frá Lónakoti í Hvassahrauni að Krýsuvíkurvegi, skuli þurfa að bíða næstu 10–15 árin. Höfum hugfast að dag hvern fara um þennan veg rúmlega 20.000 bifreiðar og er kaflinn sá fjölfarnasti á landinu. Það hefur komið fram í ummælum og í ræðu og riti frá samgönguráðherra að umferðaröryggismálin eigi að hafa í hávegum í þessari áætlun. Það er að sjálfsögðu eðlilegt en að sama skapi tel ég undarlegt að hægt sé að undanskilja þennan hættulega kafla á Reykjanesbrautinni. Með sífellt fleiri ferðamönnum stefnir í ófremdarástand á þessum vegarkafla með tilheyrandi slysahættu. Það er bara staðreynd. Þarna hafa orðið miklar tafir á álagstímum og maður spyr sig einfaldlega: Hvernig verður ástandið þarna eftir 10–15 ár, loksins þegar er stefnt að því að ljúka þessari tvöföldun?

Herra forseti. Mér finnst algerlega óásættanlegt að fresta þessari brýnu framkvæmd í heil 10 eða 15 ár. Öryggi og umferðarálag eiga að vera útgangspunktarnir þegar framkvæmdum er forgangsraðað og að mínum dómi á Reykjanesbraut að vera þar efst á blaði. Við sjáum það í öllum þeim tölum sem liggja fyrir um þá miklu umferð sem fer um þennan veg. Leita hefði átt allra leiða til að bjóða þetta verk út í heild sinni, þ.e. tvöföldunina frá Lónakoti og alveg inn að Kaldárselsvegi. Það hefði falið í sér hagræðingu og tilboð eflaust orðið hagstæðari fyrir vikið. Gleymum því ekki að það að fara einungis í þennan kafla milli Krísuvíkurafleggjara og Kaldárselsvegar leysir ekki umferðarþungann. Þar verður áfram flöskuháls. Þess vegna er afar brýnt að tvöfalda alla leið. Þetta eru um 5,5 km sem kemur til með að vanta upp á þegar þessari tvöföldun sem nú stendur yfir er lokið. Síðasta kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar hljóðaði upp á rúma 3 milljarða kr. og að sjálfsögðu þarf að ræða fjármögnun í þeim efnum. En til eru ýmsar leiðir. Ríkisbanki er t.d. að fara í mjög kostnaðarsamar framkvæmdir, byggingu höfuðstöðva á einni dýrustu lóð landsins, sem er framkvæmd upp á a.m.k. 15 milljarða kr. Maður veltir því fyrir sér hvort það sé eðlilegt og skynsamlegt að ríkisbanki standi í þvílíkum framkvæmdum á sama tíma og aðstæður eru breyttar í fjármálaþjónustu. Mun færri sækja banka eins og sagt er, eins og menn gerðu í gamla daga. Þetta er orðið meira og minna rafrænt og heima við þannig að þarna eru miklar breytingar fram undan. Hægt hefði verið að nýta þessa fjármuni með aukinni arðgreiðslu úr Landsbankanum til þess að fara í nauðsynlegar vegaframkvæmdir en ekki í byggingu höfuðstöðva, sem ég tel mjög óskynsamlega framkvæmd. Það er hægt að selja þessa lóð fyrir hátt í 2 milljarða kr. Hún var keypt fyrir fjórum árum af Landsbankanum fyrir 1,5 milljarða. Við sjáum að þarna eru til fjármunir sem hægt væri að nýta með skynsamlegri hætti.

Ég vil koma aðeins inn á það sem ég vil þó fagna. Ég vil fagna þeim áherslum sem eru í Suðurkjördæmi. Ég nefni t.d. tvöföldunina á milli Hveragerðis og Selfoss, það er mjög brýn framkvæmd og ánægjulegt að henni komi til með að ljúka á næstu tveimur árum. Sömuleiðis fagna ég því að fækka eigi einbreiðum brúm, að tvöfalda eigi brýr þar sem veruleg nauðsyn er á því, t.d. á hringveginum við Jökulsá á Sólheimasandi. En almennar yfirlýsingar er líka að finna í þessari áætlun, t.d. hvað varðar hringveginn um Mýrdal þar sem sagt er að leita skuli leiða við að fjármagna hringveg um Mýrdal og jarðgöng í Reynisfjalli í samvinnu við einkaaðila. Ég fagna því að sjálfsögðu að þetta sé komið á blað. Þetta er mikilvæg framkvæmd en þarna eru meira almennar yfirlýsingar, maður hefur það ekki alveg í hendi sér hvenær ráðast eigi í verkið og hvernig fjármögnun verði háttað.

Ég vil taka undir það sem hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson nefndi hér í ræðu sinni, það er veikleiki í þessari áætlun hve skammt er gengið í því að laga tengivegi, sem er afar brýnt að gera. Víða eru tengivegir í afar slæmu ástandi. Við fáum fréttir af skólabílum sem þurfa að aka hátt í klukkutíma á afar slæmum vegum. Þess eru dæmi að foreldrar sendi börn sín ekki í skóla eða sem sjaldnast vegna þess að vegir eru svo slæmir að börnunum líður hreinlega illa í skólabifreiðunum, auk þess sem hættuástand skapast á þessum vegum á veturna. Að mínum dómi er afar brýnt að reyna að setja upp trúverðuga og öfluga áætlun til að laga þessa tengivegi. Þeir eru þeim samfélögum sem nýta þá mjög mikilvægir og þetta er mikið öryggisatriði.

Ég hjó líka eftir því og tek eftir því að enn er opið fyrir veggjöld í þessari áætlun þó að fallið hafi verið frá þeim áformum sem mikið var rætt um, og er tilefni til að fara aðeins nánar út í það. Ég sé að tíminn er á þrotum og ég mun koma síðar inn í þessa umræðu, auk þess að ræða varaflugvellina á Egilsstöðum og á Akureyri. Það er brýnt að fara í framkvæmdir þar hvað varðar flughlöð o.s.frv. Og síðan eru það þessar nýjustu fréttir og hugmyndir um flugvöll í Hvassahrauni sem ég tel ekki vera skynsamlegar. En það verður að bíða betri tíma.